Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

miðvikudagur, desember 27, 2006

Það sagði mér enginn að lífið yrði auðvelt...

Erfiðleikar lífsins liggja ekki alltaf ljósir fyrir, ég var að hugsa: væri betra að vita ævina alla og geta búið sig undir blíðu og boðaföll lífsins. Vita í hverju hamingjan væri fólgin. Vita hvernig verjast ætti áföllum. Sveima um frá degi til dags vitandi hvað gerist næst, vita þar af leiðandi hvernig bregðast skuli við.

Ég lærði ung að setja undir mig herðarnar og halda áfram. Svona haltu kjafti og haltu áfram leið – vissulega skilaði þessi aðferðafræði mér því að ég gat lifað af. „Það sem ekki drepur þig herðir þig. Þetta er hluti af því að verða fullorðin.”

Margt er augljósara núna þegar ég sit dag eftir dag og sífra linnulaust um sömu hlutina. Snýti mér og slefa á öxlum þeim sem styðja mig skref fyrir skref.

Ég missti föður minn af slysförum 1969, börnin mín tvö yngri misstu föður sinn 1989, ég missti son minn nú á dögunum.

Á sínum tíma, ef minnið svíkur mig ekki, kom prestur heim og tilkynnti mér lát föður míns, svo var jarðaför, lífið hélt áfram og ekkert talað. Ég beitt sömu aðferð við börnin mín fjögur árið 1989.
Af þessu lærði ég. Og ég er að læra. Ég veit að ég þarf að takast á við sorgina og styðja þá sem eru mér kærir til að gera slíkt hið sama, ég hef þó lært ekki með mýkstu aðferðinni en lært samt.

Núna finnst mér gott að tala.
Það er gott að fá orðalaust knús.
Núna finnst mér gott að hlusta og heyra.
„Við eigum þó hvort annað” er ómetanlegt.
„Það er gott að þú gast sofið mamma mín”
Það er gott að heyra „Mér þykir vænt um þig”.

Núna finnst mér gott að þegja.
Núna þykir mér notarlegt að vera föðmuð.
Það er gott að vita af fólki nálægt sér.
Það er gott að vera ein.
Mér finnst gott að láta halda utan um mig.
Mér finnst gott að gráta.
Mér finnst gott þegar mér er sýnd samhygð.
Mér finnst gott að setja sundurlausar hugsanir mínar á blað.
Mér finnst gott að eiga góða að.

Ég sit og ilja mér við minningar, hlæ og græt.

Takk fyrir þennan tíma,
takk fyrir brosið þitt.
Þú hefur sól og sumar,
sent inn í hjartað mitt.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

5 Comments:

  • Elsku Hafdís, takk fyrir að vera vinkona mín. Hugur minn er hjá þér og þínum, knús, knús knús.

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:39 f.h.  

  • Kæra Hafdís.
    Innilegar samúðarkveðjur til þín og þinna.

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:52 e.h.  

  • Sæl Hafdís. Ég samhryggist ykkur innilega vegna fráfalls hans Torfa. Ég kynntist honum árið 2003 og hafði oft verið hugsað til hans undanfarið. Hann gaf svo mikið af sér hann Torfi. Hafði yfirleitt hugann við líðan annarra. Hann hafði mikinn vilja til að bæta sig, ekki síst til að vera styrkari stoð sínum nánustu. Þannig skildi ég hann Torfa.

    Guð blessi ykkur og varðveiti í sorginni.

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:01 e.h.  

  • kv. Andrés Jónsson

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:01 e.h.  

  • Kæra Hafdís
    Votta þér samúð mína vegna fráfalls Torfa. Hann var kraftmikill nemandi sem hafði góð áhrif á metnað bekkjarfélaga sinna. Við minntumst hans í dag með kyrrðarstund í náttúrufræðideildinni þar sem hann lærði hjá mér stærðfræði og eðlisfræði af miklum áhuga.
    Viðar, kennari við Hraðbraut

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com