Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

föstudagur, júlí 20, 2007

Alheimsundur

Já ég upplifði eitt af undrum lífsins í gær.

Hlynur sonur minn og Unnur konan hans og tengdadóttir mín, sem eiga von á sínu fyrsta barni í september, fóru í þrívíddarsónar.

Ég amman fékk að njóta þess að vera viðstödd, undursamlegt. Ég skældi þegar þau buðu mér að koma með, hélt aftur af tárunum á meðan ég horfði á litlu fyrirsætuna leika listir sínar í móðurkviði, og skældi þegar ég kom út í bíl.

Á undursamlegan máta upplifði ég eitthvað einstakt og stórfenglegt sem hrærði í hjarta mér, gleði - hamingja - þakklæti - auðmýkt, eitt stórt vá.

Fyrirsætan bar sig vel, gretti sig, brosti (já það er til mynd!) ullaði, hreyfði sig mikið, sparkaði hraustlega í mömmu sína, falleg stelpa ( þarf ekki að taka fram "alveg eins og amma sín") sem kúrði í hlýjum móðurkviði. Ég veit eitt að sá sem öllu ræður, vakir og sefur yfir henni.
Ég bíð spennt eftir að fá að halda á henni.

Það verður nú trúlega undir stífu eftirliti, börnin mín halda að ég spilli börnunum þeirra. Nú dossa ég og slæ mér á lær og bara spyr: Til hvers eru ömmur? Gruna mig um slíkt! Ég sem er miðaldra ráðsett og virðuleg fimmtíuogfimmára gömul amma.



Ég heyrði sagt í útvarpinu á dögunum að jafnaldra mín hefði fætt barn, útvarpsmennirnir gátu varla vatni haldið af hlátri, sem leiddi til þess að ég fór að húxa, húxi-húxi-húxi.
--------------Með smá tæknilegri aðstoð get ég orðið mamma 56 ára, það er á næsta ári, humm elsta barnið hefði orðið 35 ára yngsta 26 ára, hin tvö 32 og 29. Elsta barnabarnið að fermast, Gösli minn 65 ára. Ójá spurning um að hafa öldrunarlækni viðstaddann fæðinguna?
Ég stæði á sjötugu þegar kæmi að fermingu, Gösla vantaði ár eitt í áttrætt.

Ég dreg fram feldinn góða leggst undir hann og velti því fyrir mér hvort það að verða elsta mamma á Íslandi sé fyrirhafnarinnar virði?

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home


Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com