Heilsan.
Heilsufarskvæði
Nú líður mér illa, lasin er ég
margs konar kvilla-merki ber ég.
Um allan skrokkinn frá skalla að il,
mér finnst ég allsstaðar finna til.
Þessi fjári birtist í ýmsum myndum,
fjölbreytnin er með ólíkindum.
Í vindverkjum sterkum -vondu kvefi,
ræmu í kverkum - rennsli úr nefi.
Svo er þrálátur hósti,
og þyngsli fyrir brjósti.
En beinverkir þjaka baki og fótum,
og það brakar í öllum liðamótum.
Það grasserar sem sé gigtarfjandi,
sem almennt er talinn ólæknandi.
Þá er sljóleiki fyrir augum
en slappleiki á taugum
og svo þessi eilífa syfja,e
ða sárindi innan rifja
og óþægindi í einhverri mynd,
ofan, nei líklega neðan við þind.
Yfir höfðinu er þessi þráláti svimi
en þreytan gagntekur alla limi.
Og loks fylgir þessu lítill máttur
óregIuIegur andardráttur
bólginn magi og blásvört tunga
bronchitis í hægra lunga.
Svo safnast á líkamann skvapkennd fita
þótt ég skeri við nögl hvern matarbita.
Og í sjö vikur hefi ég - segi og rita
sofnað með köldu og vaknað með hita
samt hefði ég aldrei upphátt kvartað
ef lasleikinn væri ekki lagstur á hjartað.
Þar hef ég nú orðið stöðuga stingi,
sem stafa af brjáluðum blóðþrýstingi,
og lon og don hjá læknum er ég,
með litla von frá læknum fer ég.
Þeir hella yfir mig heilræðabulli
og ætlast til þess,
að í desílítrum ég drekki,
svaka dýr meðul, en samlagið borgar ekki.
Já, lítið er gagnið að geislum og bökstrum og sprautum
við svona fjölbreytni
vanlíðan og þrautum.
Það ber helst við, að mér batni á köflum
af brúnum skömmtum og magnýl töflum
og þó -----Já, batni mér snöggvast í baki og fótum
þá versnar mér um leið í liðamótum.
Og verði eitthvað hlé á vonda kvefinu.
þá vex að því skapi rennsli úr nefinu,
og réni um stund hinn harði, þurri hósti,
þá hundraðfaldast þyngslin fyrir brjósti,
ef augnablik tók fyrir iðraverk slæman,
þá óx sem því svaraði kverkaræman.
Og líði mér snöggvast eilítið betur í augum,
þá vex um helming vanlíðan á taugum.
Og dvíni augnablik aðkenning hjartastingsins,
þá magnast óðar brjálæði blóðþrýstingsins,
Og þess vegna er ég á eilífum hlaupum,til sérfróðra lækna og í lyfjakaupum.
Já,útlitið er ekki gott
ég þoli hvorki þurrt né vott,
það er að segja fæði,
og friðlaus af fjörefnaskorti,
Til fróunar mér ég orti,
langt og kvalafullt kvæði.
Höfundur:Böðvar Guðlaugsson
1 Comments:
Takk fyrir þetta... eg er búinn að vera að leita það þessu lengi..lengi .. lengi...
Ég man eftir að þetta var flutt í sjónvarpinu stuttu eftir að það hóf útsendingar, sennilega 1967 - 1969 og þá tók ég þetta upp með mikrophone á segulbandsspólu en er líklega búinn að glata henni eða taka yfir. Eg mundi stórar glefsur úr kvæðinu en vantaði stóran hluta. Kærar þakkir.
AÖK
By A12, at 11:22 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home