Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Pungur efasemda.

Ég dreg nú annað augað í pung hitt í dónaskap og hripa niður á blað hinar óskipulögðu hugsanir mínar og hugsanaþvætting.

Ísfirðingurinn bráðskemmtilegi fékk stæsta bros dagsins enn sem komið er eftir að ég las skrif hans í athugasemdir við mín skrif. Úbbs!

Ég efast ekki um að tengdamóðir þín Gunnar er kominn á betri stað og að henni líður vel. Til hamingju með afmælisdagana bæði liðna og komandi, ekki eru allir svo heppnir að fá að lifa langan dag, svo rétt er að íhuga að draga ekki úr hófi allt sem við ætlum að gera “ á morgun” eða “seinna” , draga fram spariskóna, sparistellið og spari allt njóta þess en fyrst og fremst að njóta hvers annars, því lífið er fólgið í því sem við höfum ekki því sem við höfðum eða langar í.


Varðandi hin málin sem hann Ísfirski Gunnar impraði á :

Allt afar fréttvænt, við sláum okkur á lær, veltum málunum fyrir okkur um stund og svo búms ----Búið.

Byrgið, humm þar sýnir sig að edrúmennska og blaður um hið heilaga orð gerir engann að góðum manni, til að geta selt eitthvað svo sem trúna þarf einhver að kaupa það sem selt er. Að notfæra sér aðstæður er ekkert nýtt fyrir neinn, að loka bæði augum og eyrum fyrir því sem miður fer er heldur ekki ferli sem fór af stað í gær. Ef enginn sér það veit það er þá ekki allt í lagi? Uss ekki tala um það.


Flestir á mínum aldri vissu um tilvist upptökuheimila, mörg okkar vissu líka að ekki var alltaf gengið til góðs á þessum stöðum, og enn í dag eru við líði stofnanir sem ekki eru samfélagi okkar til sóma. Uss ekki tala um það.

Á þessum tíma sem Breiðavík var starfandi var til siðs að senda börn og unglinga í sveit hér og þar um landið, sumir voru heppnir aðrir ekki, vinnuþrælkun, andleg og líkamleg misnotkun viðgekkst víða og fæstum var trúað þegar heim kom, ekkert beint samband er milli þess að vera bóndi og góð manneskja. Uss ekki tala um það.

Klám og vændi hefur fylgt mannkyninu frá ómunatíð, börn, ungmenni, fatlaðir, gamalmenni og svo framvegis misnotuð af perrum hvers tíma. Jafnvel lík fá ekki að vera í friði. Uss ekki tala um það.

Sérkennilegast við þetta allt er þó að mínu mati yfirlýsingar sumra ráðamanna þjóðarinnar um að “Við vissum ekki………………” Nefndir og ráð, samstarfshópar og svo framvegis, hverju má búast við?

Ég dreg í pung minna efasemda að fjaðrafokið skili einhverju gagnlegu til samfélagsins.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

1 Comments:

  • Þetta var góður pistill, svo sem von var til.
    Sannarlega er hún tengdamóðir mín nú á betri stað. Það þýðir þó ekki að væst hafi um hana hérna megin, en hún var orðin langþreytt á sál og líkama, hafandi skilað sínu ævistarfi við uppeldi og heimilisrekstur svo að sómi var að. Hún var raunar enn í hlutverkinu, annaðist bónda sinn fatlaðan af stakri alúð og umhyggju. Nú kemur að okkur, börnum og tengdabörnum að taka við. Það er ánægjulegt hlutverk, tengdafaðir minn er vel greindur maður og skemmtilegur, toppstykkið í ágætu standi þó hreyfigetan sé skert.
    Gamli maðurinn, pabbi, hefur að sönnu lifað langan dag og miklar breytingar á veröldinni. Hann hefur siglt lygnan sjó, lífið hefur verið honum gjöfult og milt. Þrátt fyrir þennan aldur eru hans helstu áhugamál að kaupa sér ný föt, hugsa um sumarbústaðinn sinn og endurnýja bílinn sinn!

    Háværar bænir og biblíutilvitnanir með handapati og -slætti gera engan að heilögum manni. Það er þó dálítið merkilegt að fylgjast með því hvernig menn virðast smám saman hafa mjakast yfir strikið og farið að telja sig guðs megnandi .

    Neðst til vinstri hjá mér, þar sem góðir skrifarar eru taldir upp, hef ég sett slóð á kvenkyns skrifara, Norðfirðing. Hún skrifar ágætan pistil vítt og breitt um m.a. þessa heimsókn klámframleiðenda til landsins. Pistillinn er skemmtilegur aflestrar, þó ekki taki ég endilega beina afstöðu til skoðana sem þar eru settar fram, enda er ég skoðanalaus aumingi.

    Fyrir ekkisvolöngu þótti það góð og gild uppeldisaðferð að flengja "óþekk" börn vel og vandlega. Þannig töldu menn sig geta kennt þeim að haga sér vel og skikkanlega. Ég efa ekki að það hefur "tekist" í mörgum tilfellum. Hversu margar brotnar sálir skyldi mega rekja til slikra uppeldisaðferða? Það vissu allir hvernig farið var með stráka í Breiðavík. En þetta voru bara óþekktarormar og voru hanteraðir sem slíkir, með "viðurkenndum" aðferðum þeirra tíma - og síðan nokkrum óhefðbundnum í bland. Enda stóð sá skrefi framar sem fundið gat nýjar "uppeldisaðferðir", s.s. að hengja börn upp í strigapoka yfir logandi eldavélina. Auðvitað eru slíkar aðferðir betur fallnar en aðrar til að gera börn að betri einstaklingum.

    Það versta er svo að mannssálin hefur ekkert breyst. Við vitum svo sem ekki hvort verið er að stunda slíkar aðferðir í námunda við okkur, á okkar dögum. En við getum verið handviss um að um allan heim viðgengst álíka meðferð á börnum. Eðlið breytist nefnilega ekkert. Séu menn á annað borð haldnir einhvers konar kvalalosta, þá leitar hann útrásar - og fær hana. Afleiðingarnar geta síðan orðið geigvænlegar, jafnvel á heilu kynslóðirnar.

    Eigðu góðan dag.

    By Blogger Gunnar , at 6:06 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home


Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com