Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

fimmtudagur, september 06, 2007

Morgungleði!

Gaman er að leika sér út um allt og vera það sem mig langar til, gera allt sem hægt er og má eða má ekki, gott er að njóta dagsins, gott er að líta á fortíðina sem reynslu og framtíðina sem tækifæri. Fyrst og fremst er gaman að vera til, vakna til dagsins sprækur og hress þar til hugurinn uppgötvar að líkaminn er eldri en hugurinn en hvað með það. Þáttur í því að vera til er að eldast með tign eða án.

Ég heyrði í útvarpinu frá umræðum um jafnrétti og jafnréttisstofu. Verið var meðal annars að velta upp hvort jafnréttisstofa væri eingöngu um konur gegn karlmönnum – karlmenn gegn konum eða um jafnrétti almennt. Þar kom fram að jafnrétti jafnréttisstofu væri um konur/karlmenn en viðmælandi spyrils hafði þó orð á jafnrétti fyrir fatlaða, samkynhneigða og aldraða.

Ég brosti nú út í annað – sko fatlaðir eru konur/karlmenn – samkynhneigðir eru konur/karlmenn – aldraðir eru konur/karlmenn.

Við hvaða jafnrétti erum við að fást? Hreykjum okkur hátt, berum okkur saman við önnur samfélög og teljum okkur standa vel og dyggilega að jafnrétti. Jafnrétti hvers?

Þegar ég var ung og fögur velti ég því fyrir mér hvort allir væru jafnir gagnvart Guði, spurðist fyrir hjá ýmsum trúarhópum og fékk almennt þau svör að allir væru jafnir. Ég var aldrei sátt við svörin ---

Bara það eitt að fæðast í þennan heim gerir okkur strax ójöfn –

Núna þegar ég er bara fögur veit ég að svo margt í mannlífinu hefur ekkert með Guð að gera – Því hann gaf okkur frjálsan vilja og huga sem er frjáls svo er okkar að ákveða hvernig unnið er úr því sem lífið færir okkur – mannavilji – mannamein – manna-manna-manna allt stendur milli okkar og Guðs, mennirnir túlka og snúa, heimfæra og staðfæra allt eftir því sem hentar hverju sinni. Hefur ekkert með Guð að gera, ég hef þá trú í dag að allir séu jafnir Guði og Guð er góður.

Jafnrétti og jafnrétti erum við ekki bara að skara eld að okkar köku? Jafnrétti mér til handa, réttlæti mér til handa – skítt með hina, gömlu, fötluðu og samkynhneigðu.

Ég fer aftur upp í rúm og fer réttu megin fram úr.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home


Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com