Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

laugardagur, mars 24, 2007

Jæja

Aldeilis ekki alveg dauð. Það í það minnsta gleður mig.
Hélt ég væri á lokasprettinum í Nuddskólanum en viti menn, hluti af apríl hefur verið skipulagður í meira nám. Íþróttameiðsl og teipingar já flott er það.
Núna þessa dagana er ég á námskeiði í vefjalosun, mjúk aðferð við að losa upp striða, ofnotaða eða lítt notaða vöðva. Geysi áhugavert.

Ég geri lítið annað en að sinna þessu verkefni og það er vel.

Stefni samt á leik á morgun, ótrúlega slakandi að horfa á körfubolta!

Enda pollróleg kona.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, mars 13, 2007

Fínn dagur

Ég heyrði sagt að þetta yrði óvenjulega fínn dagur.

Ég þurfti ekki að láta segja mér það tvisvar, stökk fram úr björt og brosandi, bjó til fótaolíur fyrir þá sem eru illa haldnir af stressi. Fór síðan að taka mig saman -----------r að leggjast út eins og svo oft áður.

Gösli minn er óvenju umburðarlyndur maður. Ég er reyndar óvenju auðveld í sambúð en á mínar götur hrynja oft steinar og björg stundum sandur sem ég þarf að smeygja mér fram hjá svo gatan sé greið.

Og hinu megin hindrananna er Gösli til staðar fyrir mig. Hann er óvenju heppinn maður því ég er óvenju yndisleg manneskja.


Ég er sátt við að við skulum vera svona óvenjuleg.

Hún Hafdís vinkona sendi mér þetta ljóð á dögunum:


Bænin hennar ömmu


Gef mér drottinn þrek í þraut að standa
þyngdu ekki lífs míns byrði meir.
Lát mig finna leið úr öllum vanda
lífsins herra bænir mínar heyr.

Hversu ört sem ólga tímans streymir
aldrei kærleiksgnægð þín getur breyst.
Þú sem engu þínu barni gleymir
þeirra vanda getur ætíð leyst.

Helga Gunnlaugsdóttir

Einstakt í mínum huga.


Nú er best að fara að haska sér, Óliver ætlar að spilla ömmu sinni, ég verð bráðum gerspillt en það fer mér nú svo vel.


Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór.


Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, mars 12, 2007

Fréttir,fréttir og meiri fréttir

Ég er, já ég er að verða amma, amma,amma, amma, AMMA, amamamma, umda, AMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMA
Sem þýðir að kona í fjölskyldu minni er barnshafandi. Og hver?
Gettu hver.

Ójá, rétt til getið Unnur Edda er að verða mamma og Hlynur Das mömmukút er að verða pabbi, sem þýðir að ég fæ nöfnu/nafna.

Ég hlakka svo til, ég hlakka svo til.

Nanananana Ingasyss, ég næ þér á endanum húrra, húrra húrra.

Barnið fæðist í september. Fer að sauma, prjóna, hekla og hanna eitthvað ómótstæðilegt um leið og ég kemst í búð.

Hjartanlega til hamingju með þetta kraftaverk Hlynur og Unnur, megi kærleikur, umburðarlyndi og ást umvefja ykkur alla tíð. Sitji Guðs englar saman í hring og verndi ykkur og verji.

Ég er feginn að æfingartímabilinu er lokið.


Rakst á þetta:

Bæn Sören Kirkegaards um trú og traust
Himneski faðir, lát eigi hugsunina um þig vakna í hjörtum vorum eins og hræddan fugl, sem flögrar burt í hræðslu sinni, heldur sem barn, sem vaknar af blundi með himneskt bros á vör. Amen.


Gamalt og gott:

Spakmæli

Vænt er að kunna vel að slá,
veiða fisk og róa´ á sjá,
smíða tré og líka ljá,
lesa´ á bók og rita skrá.

Vænt er að vera valmenni,
viljugur með iðninni,
þolgóður í þrautinni,
þýðlyndur í umgengni.

Sómi er að siðprúðum,
sæla fylgir dyggðunum,
best er vit í bóknámum,
búsæld eykst af hagleikum.

Gott er að þjóna Guði best,
geta numið þarflegt flest,
hafna stygð, en hýsa gest,
hrumum veita aðstoð mest.

Fallegt er að lesa lög,l
etra fögur vísnadrög,
byggja hús og beita sög,
blessun stýrir mundin hög.

Gott er að eignast gæðin flest,
góða jörð og sauðfé mest,
góða´ konu og góðan prest,
góða kú og vakran hest.

Vænt er að stýra sjálfum sér,
sómann læra eins og ber,
fróðleik nema´ og fremdir hér,
og forðast það, sem bannað er.

Frægð er að heiðra foreldra
forlíkast við jafningja,
hlýða góðum höfðingja,
hjástoð veita aumingja.

Gott er hóf í gleðinni,
geðugt þol í rauninni,s
ífelld bæn í sorginni,
sönn guðhræðsla í meðlæti.

Vænt er að hafa hyggið þel,
hugarnæmið gott eg tel;
fátt er betra´ en fara vel,
og finna guð með Ísrael.

Jón Þorláksson frá Bægisá


Þetta er fínn dagur.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, mars 11, 2007

Urr, hvæs, kvæs,stapp, arg,garg......

Geðvonska


Geðvonska dagsins verður í tonnum talin, baðherbergið í húsinu þar sem ég bý er það allra ljótasta, ljótasta, ljótasta í allri veröldinni, tel ég í það minnsta. Ónýtar afar ekki fallegar flísar (ófrýnilegar, úrsér gengnar, brotnar......................), ónýtur þ.e. brotinn með meiru, vaskur, vart hægt að kalla gripinn handlaug. Blöndunartæki í stíl, niðurfall oftar stíflað en hitt.
Kostur að lítið er notað af vatni annars flóir út um allt.

Ég treysti mér ekki til að lýsa ógrátandi klósettinu ( ekki salerni) og og útganginum þar um kring. Raki í úrsérgenginni innréttingu sem gefur fúkkalykt að launum. Langt síðan að eitthvað sást í því sem einusinni var spegill, trúlega af hinu góða í ljósi hækkandi aldurs.
En það eru næstum því alltaf ljósaperur í ljósastæðum.
Ónýtur gluggi, gler, lausafög og allt sem glugganum tilheyrir, búið að vera ónýtt öll þau ár sem ég hef þekkt til (17 ár)
Festingar fyrir gluggatjöld löngu ónýt.
Fyrir þrettán árum eyðilagðist eitthvað af pípum svo upp þurfti að brjóta milli herbergja, (eitthvað með ofninn að gera) svoleiðis er það enn.

Fjörutíuára gamalt baðkar, lítið hannað af japönum í það minnsta lengdin, breiddin trúlega líka, ekki súmókappa breidd þó svo við hjónakornin séum af þeirri breiddargráðu.
Engin emeliring ( svona húð innani baðkerum) eftir eða öll upphöggvin, kalkúrfellingar í kringum niðurfall og blöndunartæki sem væru dæmt ónothæf af öllum nema Gösla mínum. Þarf kúnst og kunnáttu við að láta renna í baðið, því rörin að blöndunartækjunum eru stífluð, töng þarf til að skipta á milli kranans og sturtuhaussins ef á að komast hjá stórslysi. Ef ná á mestu skítaskáninni innan úr baðkarinu þarf vírbursta og tilheyrandi efni, en ég sé ekki um að þrífa draslið.

Kostur: bara Gösli notar baðkerið og þarf 5 lítra vatns svo ekki uppúr flæði þegar hann fer ofaní

Sturtan er ekki fyrir fullvaxna ( fullbreiða ), en eini hluti baðherbergisins sem er með fúgu milli flísanna sem lagðar voru fyrir 22 árum. Ekki hægt að loka fyrir nema með lagni því annars dettur ein eða fleiri sturtueiningahurðir úr, á mann yfirleitt þegar sápan er við það að leka í augun. Blöndunartæki afar léleg vegna kalkúrfellinga og sturtuhausinn með eina og eina sprænu hingað og þangað út um allt, tekur langan tíma að blotna, auk þess sem ekki má nota vatn annarsstaðar í húsinu á meðan. Baðherbergisgólfið er því alltaf rennblautt eftir hverja sturtuferð, lekið hefur oftar en einu sinni undir þröskuldinn svo hann er ónýtur, rakablettir eru komnir á utanverðan baðherbergisvegginn. Niðurfall sturtunnar er yfirleitt hálfstíflað enda engöngu á færi Gösla míns að tjónka við það

Ekki hægt að leggja frá sér sápudótaríið sem tilheyrir hár- og líkamsþvotti nútímans.

Ljóst er að EKKIverður baðherbergið endurnýjað í ár. Ég örvænti.

Geðvonda andlega ruslafatan er tóm að sinni.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, mars 08, 2007

Auðkenni

Já ég er loksins orðin auðkennd, hummmmmmmm, andheitið við auðkennd er fullkennd ( auð/full) kannski ekki rétt. Auðkennd, fullkend ég er allavega fegin að vera ekki kennd. Í gamla daga var fólk á kenndiríi ef það var að drekka en ekki á fylliríi. Hum var það þá á auðiríi ef það var ekki að drekka.

Annars hélt ég að ég þyrfti ekki auðkenni, ég hef alltaf haldið að ég væri með auðkenni svona frá náttúrunni og þar með væri hægt á einfaldan hátt að greina mig frá öðrum, en ég er einföld sál og skil ekki alltaf einfalda hluti sem ég hélt þó að ég ætti auðvelt með að skilja.

Umda ég þarf að húxa um sinn.


--------------------------------



Ég á enn eftir að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór.

Einhver með tillögu?

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, mars 06, 2007

Fréttir dagsins

Fyrir fimmtíuogfimm árum síðan var ég skírð skemmri skírn á þessum degi, minn tími var ekki enn kominn þá, svo í dag sit ég alsæl og eins sátt og unnt er, þakklát fyrir lífið og þær gjafir sem ég hef fengið að njóta svo lengi.

Þennan sama dag fyrir þrjátíuogátta árum dó faðir minn af slysförum, ég hef sem sé verið föðurlaus í all mörg ár. En ég er sannfærð um að hann hefur það gott þar sem hann er og hugsar vel um þá sem eru nýkomnir.

---------

Ég hef dulítið gaman af ljóðum, læt eitt fljóta eftir Jóhann S. Hjálmarsson:

Ljóðhús

Þetta gerðist. Eg gekk inn í reisulegt hús
og gisti vini. Húsið, meistarasmíð,
kom mér ekki við. Vinátta fyllti tómið
sem veggirnir áttu að marka. Húsið er gleymt.


Það gerðist aftur. Eg gekk inn í reisulegt hús
og gisti húsið. Annað kom mér ekki við.
Engir vinir. Aðeins skipulagt tóm.
Athvarf í tómi. Hús í sjálfu sér. Staður.



Mér finnst hann alltaf geta sagt allt á snilldar máta.



Og svo nudda ég og nudda, fékk litlamömmukútinn á bekkinn í gær, hefði þurft lengir bekk jafnvel lengri handleggi ( svona til að þurfa ekki að hlaupa eins mikið fram og til baka við fótleggina eina saman), ætli japanir hanni nuddbekkina miðað við eigin hæð? En hann er af íslenskum víkingaættum og kvartaði ekki mikið undan móður sinni, miðað við ástand vöðva í skrokknum á honum þyrfti ég að koma höndum yfir hann fljótlega aftur.

Síðasta nudd gærdagsins var andhverfa stóra drengsins míns, smávaxin fimleikadama. Ég er ánægð með fjölbreyttnina. Frábært að enginn skuli vera eins.

Svakalega væri lífið einsleitt ef allir væru eins, ég byrja nú ekki einu sinni á vangaveltum um það málefnið því þá entist mér ekki dagurinn.

Nú ætla ég að skunda til Reykjavíkur og leyfa Óliver ömmukút að spilla mér.
Ég er nú alveg að verða gerspillt.
En velspillt.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com