Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

miðvikudagur, desember 26, 2007

Annar dagur jóla

Það er fátt fallegra en hvít jól, snjór og snjór. Ég er farin að eldast því ég neitaði að fara út og búa til engla með Gösla mínum en kannski næst.

Ekkert var spilað í gær eða ekkert hefur verið spilað um jólin hér á bæ eða lítið í það minnsta. Stækka þarf húsið og biðja um betra veður því flestir óttuðust að verða veðurtepptir einhverstaðar á leiðinni en svo reyndist bara vera ofankoma að einhverju ráði hér.

Meira seinna, meira kemur nú:

Ég fór og lagði mig.
Ég er með svo góða samvisku þessa dagana að það hálfa væri nóg, enda kemur Óli lokbrá í tíma og ótíma, dregur mig með sér inn í draumalandið, ekki er um neinar þvingunaraðgerðir að ræða heldur hreiðra ég um mig á sleðanum góða og við erum farin.

En inn á milli hef ég átt yndislegan tíma með fjölskyldunni eins og ætíð, jólin eru tími friðar ofáts og þakklætis.

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, desember 24, 2007

Jólin

Nú styttist í pakkana. ( Ekkert hægt að kíkja, mannskapurinn er farin að sjá við mér!)
Nú styttist í matinn. ( Það er gott að borða, það er gott að borða - matinn hjá þér)
Nú styttist í konfektið. ( Úps, ég þurfti að athuga hvort það væri skemmt)

Hún er komin tilfinningin blíðust og best um að allt sé gott, allt sé fínt og ég hlakka til.

Ég segi og meina að mér þykir vænt um þá sem eru í lífi mínu daglega, vænt þykir mér einnig um þá sem hafa komið og farið í gegn um tíðina.

Njótum þess sem við höfum, hvers annars og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, desember 23, 2007

Þorlákur

Lærður pisill, ekki það að ég viti hvað lærður pistill þýðir en hljómar vel ekki satt? Hér sit ég með sjálfstraustið mitt veika eins og stórskáldið forðum og velti fyrir mér deginum, lífinu og mér sjálfri.
Dagurinn fínn.
Lífið fínt
Ég fín.

Þá er nú ekkert meir að segja eða hvað? Það bilur nú oft hæst í tómri tunnu og svo er nú.
Talandi um daginn, þorláksmessu já þorláksmessu sem er hátíð út af fyrir sig, og í augnablikinu fyrir mig líka. Ein með sjálfri mér því heimilismeðlimir sofa svefni hinna réttlátu, þreyttir og sælir örlítil tilhlökkun sést í fari þeirra á vökutíma en þar sem þeir eru orðnir fullorðnir fer ég ekkert inn til þeirra og hlúi að þeim, þó svo hinir fullorðnu þurfi oft á því að halda. En ekki á þessum fallega morgni, eftilvill seinna. Horfandi fram á daginn; hún dótla mín og afleggjarinn hennar, skælistubban fríða ætla að koma í skötu og skrabbl. Ég geri ráð fyrir að dóttirin tvíhendi orðabókinn slitnu og góðu í þrátti við Göslarann okkar um meiningu orða og orðskrýpa meðan við Tútta borðum skötu. Ég hlakka svo til.
Varðandi lífið sjálft í sinni margbrotnu mynd þá er það yndislegt, ef ég þekkti ekki sorgina þá held ég að ég kynni ekki eins vel að meta gleðina og þakklætið sem ég finn fyrir á hverjum degi sem mér er gefin með öllu því frábæra fólki sem kemur inn í líf mitt og er í lífi mínu. Sumir stoppa um stund aðrir staldra lengur við allt með tilgangi og af öllu og öllum hef ég lært og er óendanlega þakklát frá dýpstu hjartarótum fyrir allt sem mér er gefið.

Varðandi mig sjálfa þessa fínu manneskju, þá er gott að vera ég fín hið ytra og innra, sátt og sæl, æðrulaus og hamingjusöm. Svo sérkennilegt að vera sífellt að uppgötva að hamingjan kemur innan frá. Og ekki síður að skilja hinar einföldu staðreyndir um sjálfan sig. Ég geri mig hamingjusama með afstöðu minni og framkomu.

Ofangreint raðað stafarugl er sem sé lærði pistill dagsins. Þá er honum lokið og ég get skrifað hitt og þetta eða þetta og hitt ólært. Það eru hvort eð er svo margir lærðir spekingar sem slá um sig orðræðu sem er illskiljanleg jafnvel þeim sjálfum að ég verð að fá að vera eins og ég er, ofvirk með athyglisbrest, örlítið á skjön við aðra menn, miðaldra en ekki ráðsett þó svo ég hafi flatst út í áranna rás.

Ég fer og klíp í pakkana, hristi þá og reyni að giska, þoli ekki pakka sem eru faldir í einhverju svo ég fatti ekki hvað í þeim leynist.
Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, desember 17, 2007

Sorgin

Sorgin bjó sig heiman að.

Um þetta leiti í fyrra var óvissan alger, vonin farin að minnka, óttinn mikill en líf mitt hélt áfram.
Ekki enn ljóst með það sem olli ótta mínum, það var þann átjánda desember sem staðfesting fékkst á, óttinn var ekki ástæðulaus.

Og lífið heldur áfram, njótum þess og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, desember 16, 2007

Stundum

Stundum er lítið að segja, stundum ekkert.

Núna er ekkert.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, desember 09, 2007

Allar fréttir af andláti mínu

eru stórlega ýktar þó svo ekki verði hjá því komist að segja örlítið frá langri fjarveru þá er ég snarlifandi. Og bara í sprækari kantinum.

Ég hef sem sé verið í hvíldarinnlögn á stað þar sem innkaupa-þrifa og jólasjúkar konur geta komist á fyrir um hálfa milljón á dag.

Ég hef lifað á hráfæði, lifandi fæði, ávaxtasöfum, korni og grænmeti ásamt bráðhollu íslensku vatni, grænu og hvítu tei.

Magahreinsun, ristilhreinsun, fitumæling, súrefnisklefar og saltvatnskúrar ásamt huglægri atferlismeðferð hafa gert mig að betri manneskju andlega og líkamlega.

Allt annað að sjá mig get ég sagt ykkur í trúnaði, orðin há og grönn, slank og fitt.

Með glansandi húð og hár og stöðugan niðurgang. En allt er á sig leggjandi fyrir betri heilsu.

Því miður var komið svo mikið ryk á jólaskrautið sem komið var upp að nú verð ég að haska mér í að endurhanna allt heila klabberíið, yndislegt ég held ég þurfi að skipta öllu út. Gott að hann Gösli minn telur ekki eftir sér að bæta við sig vinnu núna á aðventunni.

Njótum dagsins lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com