Ekki kát -
Dreif mig fram úr rúminu réttu megin um hálfsjöleitið í morgun, gerði á mér tilheyrandi morgunverk, bætti við bænum og hugleiðslu, örlitlu af hangsi og slóðaskap eins og mér er einni lagið. Full tilhlökkunar til dagsins því ég átti tíma í nuddi klukkan átta hér í Borgarnesi. Skömmu fyrir tilsettan tíma klæddi ég mig til dagsins og mætti á biðstofu Margrétar Ástrósar Helgadóttur heilsunuddara með meiru.
Þar tók við bið - ég setti mig strax í hugsunarstellingar "Engin kominn" - " Hvað er í gangi" - Las snepla sem voru á boðstólunum eða fletti þeim því ég get ekki bæði hugsað og lesið.
Eftir kristilega bið í nákvæmleg tólf mínútur ákvað ég að snúa upp á mig og fara - en ákvað að skilja eftir miða með skoðun minni á þessar meðferð, ég verð að vona að kerlingjarbykkjan hafi einhverja löglega skýringu á athæfinu svo sem eins og hennar eigið andlát. (Drottinn blessi í mér tunguna og ég vona að ég sé ekki sannspá(svona innst inni)) en á einhvern máta lét ég þetta raska minni sóísku ró og er fremur pirruð hér fyrir framan tölvuna.
Og ég er viss um að þetta hefði orðið vont nudd, ófagmannlegt, gert með hangandi hendi, ekki viðunandi svo ég er þegar upp er staðið heppin að sleppa við þá skelfilegu lífsreynslu sem ég hefði getað orðið fyrir ef nuddaraódóið hefði mætt.
Ég er trúlega lánsöm að vera á lífi ósköðuð á líkama (eitthvað virðist sálartetrið hafa skaddast á ekkinuddinu), svona pakk er örugglega ekki með tryggingu fyrir andlegum og líkamlegum skaða eins og þeim sem ég hef nú orðið fyrir.
Ég fer og legg mig, ætla að biða ann sem öllu ræður að aðstoða mig við að slétta úr ólgandi huga mínum.
Njótum dagsins.