Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Himnarnir hrynja.....

yfir mig. Komið hefur í ljós að ég er ekki á sveppum, hinsvegar er Gösli grunaður (Hér set ég fingur á nefið á mér til að gefa til kynna að ég viti lengra en nef mitt nær)

Ástæða:

Gösli þveglaði húsið óumbeðinn! Hummmmm.

Hvað er í gangi? (Önnur kona á svæðinu, ég er aldrei/sjaldan heima?)

Hvað kom fyrir? (Datt hann á toppstykkið í vinnunni og ruglaðist við það?)

Er hann feigur? ( Hann segir mér það óhikað ef menn breytast í andhverfu sína séu endalokin í nánd þ.e. .........nískir verði gjafmildir og svo framvegis?)

Niðurstaða mikillar húxunar:
Sólin er farin að blessa allt með geislum sínum og honum ofbauð samansafnað ryk vetrarins, aha lítið fútt í einföldum staðreyndum.


Ég ætla að skunda af stað út í þennan stórfenglega dag, njóta þess í botn að leyfa Óliver Ömmusyni að spilla mér í óþvingaða, óráðsetta miðaldra konu sem situr flötum beinum á gólfinu með honum og borðar bjúgu með rúsínum.

Ég er svo þakklát fyrir allt sem ég hef fengið í lífinu, án þess væri ég ekki sú sem ég er.

Náði í þetta:

Megir þú lifa í þúsund ár og ég með þér til að telja þau.
Megi aldur þinn verða jafn hár og fjallið og hamingjan jafn djúp og hafið.

Ég vona að merkisatburðir lífsins verði þér til gleði,
en ekki síður allt hið smávægilega, blóm, söngur og fiðrildi sem sest á hönd þína.

Megi sólin ætíð skína á þig, ástin umvefja þig og ljósið ljúfa í brjósti þínu lýsa þér um lífsins veg.
Farðu eigin leiðir, berðu höfuð hátt og gerðu ráð fyrir gæfunni.

Á hverjum degi óska ég þér nýrrar ástar á einhverju sem fagurt er,
nýrrar gleymsku gagnvart því sem stríðara reynist, meira stolts af hinu vegsamaða,
sætari friðar frá því sem brýnt er og betri varnar gegn áhyggjum.
Að tíminn líði hægar þegar þú ert hamingjusöm, en erfiðir dagar fljúgi hraðar hjá.

Fegurð þagnarinnar falli þér í skaut, dýrð sólarljóssins, leynd skuggans,
kraftur vatnsins, sætleiki loftsins, þögull styrkur jarðarinnar,
og ástin sem býr í hjarta alls sem er.
Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Tilkynning:

Er á lífi, ekki á sveppum.

Óliver ömmustrákur er bókstaflega að gerspilla mér þessa dagana, umda, umda, uuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuummmmmmmmmmmmmmmmmmmmmddddddddddddddddddddddaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaa
,umda.

Við skríðum saman um öll gólf, byrjum á hnjánum bæði tvö hann undir ömmu og svo skjótumst við af stað eða hann skýst af stað og amman heldur að hún geri það, svo hefst gamanið hring eftir hring í íbúðinni, ungi maðurinn leggur línurnar og amma hermir eftir, setjast, skríða, standa upp dansa, skríða, klappa saman lófunum, annar fóturinn út í loftið, hlegið, brosað, lagst á magann, bumba, bumba, pippi,pippi, burr, burr, tiss,tiss, aff,aff, ammmmmma, amma,amma, amma .............mörg undarleg hljóð og skrýtinn framburður orða en amma skilur allt veit að mikilvægt er að hlusta og taka eftir.

Amma gerist virðuleg, tekur rýjuna af barninu, drenghnokkinn stendur upp þegar í stað skondrar fram í forstofu reynir að pissa með tilheyrandi prump hljóðum, tekst að pissa á vandaðar steinflísar brosir út að eyrum, mikið afrek. Mamma drengsins segir hann reyna að pissa í skó föðursins, amman fór í gær og keypti kopp.

Drengurinn fær rauðan kopp í dag svona af því hann er svo sætur alveg eins og amma sín.

Dýrðin ein, er ekki lífið einfalt og gleðilegt?

Njótum hvors annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Þriðjudagur

Í afmælisdagabók heimilisins stendur:

Öll él birtir upp um síðir. ( Sammáa, sammála og sammála)

Spádómur dagsins frá Mbl um vatnsberann:


Þú stendur á krossgötum. ( Velja, velja, veja)
Önnur gatan leiðir þig að hólum og hæðum og að yndislegri en fjarlægri vin. ( Líst vel á það)
Hin gatan sveigir skyndilega svo þú sérð ekki neitt. ( Tek litla áhættu í dag)
Í hversu miklu ævintýraskapi ert þú? ( Engu)

Gass............. í huga mér stendur:

Ég hélt þú værir þokkalega vel gefin Hafdís. ( Vísa til lélegrar niðurstöðu úr prófi)

Í kyrrðarsporunum stendur:

Vertu gagnrýninn á sjálfan þig en gleymdu ekki að hrósa þér þegar ástæða er til. ( Gott hrós er gulls í gildi)
Nú og hér stendur:

VERTU TRÚR ÞÍNUM INNRI MANNI. EINS OG TRÉÐ SEM VEX ÓHÁÐ GÆFU OG ÓGÆFU. HVORKI GÓÐVIÐRIÐ NÉ ILLVIÐRIÐ FÁ HAGGAÐ ÞVÍ. ( Eins og ég hefði samið þetta sjálf)

(A day at a time) Í bókinni einn dag í einu stendur:

Reiði tekur á sig margar myndir. ( Ójá og ekki alltaf augljósar)


Hvað ályktun ber mér svo að taka eftir lestur hér og þar?


Ályktun:

Vera ég sjálf íklædd sparifötum innst sem ytra, segja við sjálfan mig "takk og bless" í hvert sinn sem hugsanir sem ég get ekki höndlað læðast inn í huga minn og halda fund þar.
Vera jákvæð, kærleiksrík og mild. Njóta dagsins, lífsins og allra sem koma að mínum góð degi.

Ég er ótrúlega heppin að vera ég.


Njótið gleðinnar og kærleikans.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, febrúar 19, 2007

Sólargeisli kærleikans

Er nokkurntíma nóg af kærleika?
Sá spyr sem ekki veit.

Ég rakst á eftirfarandi:

Hver ert þú
Þú ert ekki einn heldur þrír menn:
Sá sem þú heldur sjálfur að þú sért
Sá sem aðrir halda að þú sért
Og sá sem þú ert í raun og veru.
Hví ekki að reyna að kynnast honum ?
Ef til vill myndi það gerbreyta lífi þínu.


Alltaf að rekast á eitthvað, undarlegt að ég skuli ekki vera meira marin.


Gösli minn er með snert af seinkveddu.

Kemur af orðinu "bráðkvaddur" og svo "seinkvaddur"

Ég hef fengið snert af bráðkveddu, svona þegar lurkur er í mér, svo þegar Gösli minn tók vísir af flensu inn á sig á dögunum taldi hann sig vera með seinkveddu.

Aldeilis ekki verra en hvað annað.

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Lífsreglur.

Eru þær nú nauðsynlegar? Stundum er best að láta reka á reiðanum, vaða á súðum, setja undir sig herðarnar og áfram nú.


Stal eftirfarandi kvæði af bloggsíðunni hennar Hafdísar Þórðar:

Vinsamleg tilmæli

Ég veit – er ég dey – svo að verði ég grátinn,
þar verðurðu eflaust til taks.
En ætlirðu blómsveig að leggj´ á mig látinn
-þá láttu mig fá hann strax.

Og mig, eins og aðra, sem afbragðsmenn deyja,
í annála skrásetur þú;
og hrós um mig ætlarðu sjálfsagt að segja
en – segðu það heldur nú.

Og vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,
þá verður það eflaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína,
en – mér kæmi hann betur nú.

Og mannúðarduluna þekki ég þína,
sem þenurðu dánum í hag.
En ætlirð´ að breiða yfir brestina mína,
þá breidd´ yfir þá í dag.


Eftir Heiðrek Guðmundsson
frá Sandi

Þetta finnst mér aldeilis smart.

Hversvegna fylgjum við fólki til grafar? Er ekki betra að heimsækja þá sem okkur eru kærir meðan þeir eru lifandi.
Ég vil frekar tala við fólk meðan það er statt á sama stað í tilvistinni og ég. Er ekki nægilega dugleg við það samt. Seinna, hvað í óskupunum er seinna?


Af spökum Jóhanns Hjálmarssonar:

Af öllu sem í æsku mér var kennt
að óttast man eg bara þetta tvennt:
annað var gamalórar - hvað var hitt
hefir nú fyrir skemmstu í gleymsku lent.


Dýrðin ein, dýrðin ein.


Ég segi nú eins og Sylvía Nótt " Ég elska mig líka"


Ég splæsti atkvæði mínu á gamla rauð í gærkveldi, hann er nú gassalega smart þessi elska (Eiríkur Hauksson) man hinsvegar ekkert eftir laginu sem hann söng, flottur er hann.
Ég þarf að finna út hversu gamall hann er svona til að geta sagt "miðað við aldur" við ömmustelpurnar mínar sem eru á þeirri skoðun að allir sem eru farnir að nálgast tvítugt séu á grafarbakkanum.


Dagurinn í dag er góður dagur, njótum hans.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, febrúar 17, 2007

Pungur efasemda.

Ég dreg nú annað augað í pung hitt í dónaskap og hripa niður á blað hinar óskipulögðu hugsanir mínar og hugsanaþvætting.

Ísfirðingurinn bráðskemmtilegi fékk stæsta bros dagsins enn sem komið er eftir að ég las skrif hans í athugasemdir við mín skrif. Úbbs!

Ég efast ekki um að tengdamóðir þín Gunnar er kominn á betri stað og að henni líður vel. Til hamingju með afmælisdagana bæði liðna og komandi, ekki eru allir svo heppnir að fá að lifa langan dag, svo rétt er að íhuga að draga ekki úr hófi allt sem við ætlum að gera “ á morgun” eða “seinna” , draga fram spariskóna, sparistellið og spari allt njóta þess en fyrst og fremst að njóta hvers annars, því lífið er fólgið í því sem við höfum ekki því sem við höfðum eða langar í.


Varðandi hin málin sem hann Ísfirski Gunnar impraði á :

Allt afar fréttvænt, við sláum okkur á lær, veltum málunum fyrir okkur um stund og svo búms ----Búið.

Byrgið, humm þar sýnir sig að edrúmennska og blaður um hið heilaga orð gerir engann að góðum manni, til að geta selt eitthvað svo sem trúna þarf einhver að kaupa það sem selt er. Að notfæra sér aðstæður er ekkert nýtt fyrir neinn, að loka bæði augum og eyrum fyrir því sem miður fer er heldur ekki ferli sem fór af stað í gær. Ef enginn sér það veit það er þá ekki allt í lagi? Uss ekki tala um það.


Flestir á mínum aldri vissu um tilvist upptökuheimila, mörg okkar vissu líka að ekki var alltaf gengið til góðs á þessum stöðum, og enn í dag eru við líði stofnanir sem ekki eru samfélagi okkar til sóma. Uss ekki tala um það.

Á þessum tíma sem Breiðavík var starfandi var til siðs að senda börn og unglinga í sveit hér og þar um landið, sumir voru heppnir aðrir ekki, vinnuþrælkun, andleg og líkamleg misnotkun viðgekkst víða og fæstum var trúað þegar heim kom, ekkert beint samband er milli þess að vera bóndi og góð manneskja. Uss ekki tala um það.

Klám og vændi hefur fylgt mannkyninu frá ómunatíð, börn, ungmenni, fatlaðir, gamalmenni og svo framvegis misnotuð af perrum hvers tíma. Jafnvel lík fá ekki að vera í friði. Uss ekki tala um það.

Sérkennilegast við þetta allt er þó að mínu mati yfirlýsingar sumra ráðamanna þjóðarinnar um að “Við vissum ekki………………” Nefndir og ráð, samstarfshópar og svo framvegis, hverju má búast við?

Ég dreg í pung minna efasemda að fjaðrafokið skili einhverju gagnlegu til samfélagsins.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, febrúar 05, 2007

Febrúar

Febrúar 2007 kominn, ég á náttfötunum snjór úti og Gösli minn sofandi inn í rúmi. Ég er full af öryggi ástúð og friðsæld.
Það er ótrúlega gott að elska og vera elskuð.

Helgin var full af fjöri, ungar stúlkur allar á tíunda ári, fjórar samtals héldu okkur gömlu hjónunum selskap um helgina.
Ein svarthærð, ein brúnhærð, ein skolhærð og ein ljóshærð. Snillingar allar upp til hópa.
Tvær fæddar í júlí, ein í ágúst og ein í desember.
Tvær vilja vera eldri en þær eru.
Tvær eru sáttar við aldur sinn.
Ætli það verði alltaf svoleiðis?
Á þessum aldri er spennandi að vera elst, innan tíðar verður spennandi að vera yngst.
Áður en ég átta mig verða þær orðnar mömmur og ég langamma, ég hlakka til.

Íhugun dagsins:

Hversvegna erum við mildari við aðra en okkur sjálf?

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com