Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Sumarleyfi

Já, já nú er komið að sumarleyfi okkar hjóna, skemmtilegt það. Ég er nú ekki alveg með allt á hreinu því betri helmingur minn er farinn að vinna. Þetta frí er skipulagt frá því í maí að sögn Gösla, frá því í júlí ef ég segi frá. Stefnt á austfirði ef ég segi frá og á vestfirði ef hann segir frá.

Áður en hann fer í fríið á eftir þarf hann að steypa eina brú og þak menntaskólans nýja hér í sveit. Ég hef þegar sett tannburstann og hreinar nærbuxur í rassvasann.

Hann ætlar að pakka þegar hann kemur heim milli níu og tíu á eftir, það er í dag.
Ég er búin að setja bensín á bílinn, hann er búinn að ganga frá húsinu, reikningum - fá öryggiseftirlitið til að líta eftir eignum vorum ásamt því að láta tengja nýja þjófavarnarkerfið sem hann telur ekki hægt að vera án. Öryggið á oddinn er hans mottó, ég kæruleysið uppmálað ætla ekki einu sinni að taka með mér ................. ef ég þyrfti á því að halda eða .................. sem gæti verið ómissandi. Hann setti straujárnið á borðið áður enn hann fór til að gleyma því ekki.

Ég hef ákveðið að sumarfrí sé hugarástand, þá verð ég glöð yfir undrum dagsins sem kemur aldrei aftur.

Njótum.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Ég vaknaði í morgun

Mér finnst þetta stórfrétt" Ég vaknaði í morgun"

Já ef ég hefði ekki vaknað þá væri ég ekki að skrifa þetta nema ef ég væri að skrifa sofandi og væri þá með góða nýtingu á tíma mínum Ef ég vakna, þá í það minnsta ætti ég að vera vakandi. Hver er munurinn á vaka og sofa ég bara spyr eins og hver önnur fávís kona?

Reyndar mótmæli ég því að vera fávís en kona er ég.

Þar sem lyklaborðið er að ergja mig lýkur hér með umfjöllun dagsins um ekki neitt.



Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Heima

Heima eftir dulítið langa útlegð, er búin að sjá að ég þroskast hægt en þroskast samt. Hef enn gaman af vertíðarvinnuskorpum, ég er sem sé að dudda mér við að vinna 200 tíma á 24 dögum.

Það er fyrir utan hefðbundin dagleg störf eins og hús-og morgunverk, ætli ég verði ekki með verki þegar vinnutörn lýkur en það verður þá og ég vinn með það þegar að því kemur.

Óhemju skynsöm kona.

Ég verð nú að segja frá sjöþúsund og fimmhundruð krónunum sem ég þurfti að borga á dögunum í hraðaksturssekt, mér er nær ég veit, ég veit. En snögt samt.
Ég keyri mikið milli Reykjavíkur og Borgarness, ek á 90-100 km hraða nema í göngunum. Nú ég er alltaf skilin eftir ein og síðust bíla, allir skjótast fram úr bæði með og án aftanívagna. Allt í lagi með það ég kemst þó hægt fari.

Svo var ég ein á ferð einn blíðan morgun, þurrt, bjart og ég alein á ferð - hvergi annar bíll , mynd var tekin af mér við Fiskilæk, frúin á hundrað km hraða. Nú dæmd með þriggja kílómetra frádrætti fyrir akstur á 97 km hraða, sekt kr. 10.000.- borga strax kr. 7.500.- búin að borga en sé eftir aurunum. Það er dýrt að vera ökuníðingur, ég reyni að læra af þessu og haga mér betur á næstunni.

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, ágúst 13, 2007

Fúnir fingur

Ég held að bloggleti sé eitthvað hugtak sem vert er að gefa gaum. Hvað í óskupunum er það? Hvað er blogg? Ég veit hinsvegar að leti er dyggð en ekki löstur.

Ég er ein af mörgum sem hef gaman af að röfla á lyklaborð, eða röflar einhver á lyklaborð? Allavega hef ég gaman af því að setja hugsanir mínar á blað eða skjá. Það er dálítið undarlegt að hafa þörf á að tjá sig um ekki neitt eða lítið, eða hafa skoðanir á skoðunum annara. Má vera að í mér blundi laumurithöfundur? Sem vonast til að snilldin verði uppgötvuð einhverstaðar út í hinum stóra heimi, er hégóminn að læðast í fylgsnum hugans? Já víða liggja vangavelturnar. Að velta vöngum yfir engu - er það ekki helber tímasóun? Sá spyr sem ekki veit.

Líf mitt er ljúft sit daglangt og sauma út og hekla á barnabörnin sem væntanleg eru í næsta mánuði, hlusta á þögnina. Stundum finnst mér þögnin vanmetin, þegar ekkert utanaðkomandi hljóð er heyri ég vel hugsanir mínar og þær eru margar hverjar snilldin ein.

Njótum lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, ágúst 06, 2007

Lífsvandamál

Mín lífsvandamál eru hvorki stór né mörg, í dag er það helst slen og ónot sem hrjá mig, má segja að fyrsti vísir af heimsfrægri haustflensu sé að líta við hjá mér en ég ætla ekki að láta hana ná bólfestu í mínum íðilfagar skrokki hvað þá heltaka minn dásamlega snilldarhuga.

Ég er glöð í dag að vera ekki á leið til Reykjavíkur.

Njótum lífsins

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, ágúst 04, 2007

Fréttir

Núna er verzlunarmannahelgi.


Ég er búin að fá að vita þetta stöðugt undanfarna daga! Og ætti að vera þakklát. Í blöðum, útvarpi og öllu öðru sem eitthvað hefur að gera með miðlun tóna og tals jafnvel held ég að draumaúthlutarinn hafai minnst á þetta. Ég væri örugglega án þessarar vitneskju ef ég byggi ein á eyðieyju.
Ég heyri og sé auglýsingar tengdar þessari helgi, ég heyri og sé tilkynningar um allt milli himins og jarðar, líka varnaðarorð af ýmsum toga. Ég reyndi að hlusta á útvarp en skipti yfir í þögnina. Mér finnst þögnin góð. Mér finnst kyrrðin góð. Mér finnst gott að vera hljóð með sjálfri mér.
Ég hef tekið ákvörðun um að forðast upplýsingamiðla á næstu dögum, ég held að næstu fréttir og umfjöllun um þær verði tíundun á hremmingum helgarinnar merkilegu sem nú er að líða. Ekkert/fátt er óskemmtilegra en forarvelta yfir hremmingum og óförum annara.

Ég er á leið út í daginn, ég vona að hann verði venjulegur og ég kunni að meta hversdagsleikann með öllum sínum sjarma.

Svo er það minni stóri galli, ekki allir litlu heldur sá stóri; hugsun, þegar ég fer að hugsa fer allt alltaf í flækjur, ég hef verið að hugsa um að hugsa um heilsuna. Núna skil ég ekkert í að ekkert er að gerast í heilsumálum hjá mér. Er ekki nóg að hugsa? Svo væri nú aldeilis gaman að vita hvernig maður hugsar, ég hugsa stundum um það. Kannski er best að hætta að hugsa og fara að íhuga? Ætli það skili árangri, ég meina betri árangri?
Nú þá þarf ég að vita hvað árangur er. Ég segi nú enn og aftur við hvað er miðað og hvernig er mælt?

Njótum hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Ágúst

Nú er kominn ágúst mánuður ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum, ég er með opið út og kulda setur að loppunum. En ég er íslenskur harðjaxl og fer ekki til þess að loka.

En ég er svo glöð í dag yfir að eiga nóg af öllu, allir miðlar landsins eru veltandi sér upp úr tekjum og tekjuleysi landans. Enginn veltir sér upp úr því hvernig mér reiðir af og það er vel. Ég gleðst með þeim sem vegnar vel og eiga nóg fyrir sig og sína, ekki er verra að eiga afgang, ég vona að allir njóti sem lengst og mest.
Svona í framhjáhlaupi er alltaf gott að eiga umfram það sem er nóg, hefði stundum viljað það en í dag er allt sem ég þarfnast til staðar ekki endilega það sem mig langar mest í enda er sá þáttur ekki tengdur peningum eða veraldlegum auði heldur einfaldlega því að ég vildi að Torfinn minn væri enn hjá okkur lifendum. En um það getur auður engu breytt eða neitt annað. Lífið bara er.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com