Sunnudagsmorgun
Og ég ákvað að færa mér blóm í tilefni dagsins. Góður dagur.
Óskaplega er gott að vakna til dagsins og lífsins einu sinni enn, fegurri en nokkrum sinnum fyrr. Ef til vill ekki ytra byrðið enda er það farið að láta á sjá nú á haustdögum lífs míns. Heldur það innra og fegurðin kemur innan frá.
Æviskeið mannsins í mínum huga skiptist eftir árstíðum í vor, sumar, haust og vetur.
Vorið er tíminn frá fæðingu til um það bil tuttuguogfimm ára aldurs.
Sumarið síðan er tíminn til fimmtugs svona hér um bil.
Haustið er til sirka sjötíuogfimm ára aldurs.
Veturinn er svo afgangurinn af lífinu.
Fullt er til af skýringum á aldursskeiðum mannsins, mér finnst þessi góð. Fimm ár til eða frá á hverjum tíma finnst mér til góðs, 0-20, 20-40, 40-60, 60-80 er trúlega betri skipting, svo ég held mig við meðaltalið, raunar líst mér betur á síðari skiptinguna en málið er að nú styttist í veturinn í lífi mínu og ég vil gjarnan lifa veturinn að hluta, fyrri hluti vetrar er alltaf svo góður tími.
Sem sé nú lifi ég á síðari dögum haustsins í lífi mínu, ég er ánægð með það.
Einfaldir hlutir fuglasöngur, allur gróður að lifna, vorið er minn tími, ég elska vorið með birtunni, blíðunni og blómunum. Sólin sem blessar allt iljar,vermir verndar, vá er nokkuð yndislegra en vorið. Ég finn nú reyndar sjálfan mig æsast upp í framkvæmdagleði og hugmyndastormar geysa um allt höfuðið á mér. Vá ég er lánsöm, elskuð eins og ég er skilyrðislaust, ég elska sjálf skilyrðislaust, ég á nóg af öllu, yndisleg börn, tengdabörn og barnabörn, áhugamál, heilsu og heilbrigði.
Ég elska að vera til. Megi ég vera til lengi enn.
Í góðu kvæði stendur að haustið sé tími tregans, að sjálfsögðu get ég litið yfir mín fimmtíu og fimm ár og tregað sitthvað sem hefði getað farið betur, en vegna reynslu minnar, upplifunar og mistaka er ég sú sem ég er og ekki vildi ég vera önnur. Ég hefði valið ef ég ætti þess kost að sumt væri öðruvísi en það er en ég sætti mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Ójá ég á skilið annan blómvönd, mér finnast blóm falleg.
Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.