Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

sunnudagur, apríl 29, 2007

Sunnudagsmorgun


Og ég ákvað að færa mér blóm í tilefni dagsins. Góður dagur.Óskaplega er gott að vakna til dagsins og lífsins einu sinni enn, fegurri en nokkrum sinnum fyrr. Ef til vill ekki ytra byrðið enda er það farið að láta á sjá nú á haustdögum lífs míns. Heldur það innra og fegurðin kemur innan frá.Æviskeið mannsins í mínum huga skiptist eftir árstíðum í vor, sumar, haust og vetur.Vorið er tíminn frá fæðingu til um það bil tuttuguogfimm ára aldurs.Sumarið síðan er tíminn til fimmtugs svona hér um bil.Haustið er til sirka sjötíuogfimm ára aldurs.Veturinn er svo afgangurinn af lífinu.Fullt er til af skýringum á aldursskeiðum mannsins, mér finnst þessi góð. Fimm ár til eða frá á hverjum tíma finnst mér til góðs, 0-20, 20-40, 40-60, 60-80 er trúlega betri skipting, svo ég held mig við meðaltalið, raunar líst mér betur á síðari skiptinguna en málið er að nú styttist í veturinn í lífi mínu og ég vil gjarnan lifa veturinn að hluta, fyrri hluti vetrar er alltaf svo góður tími.

Sem sé nú lifi ég á síðari dögum haustsins í lífi mínu, ég er ánægð með það.Einfaldir hlutir fuglasöngur, allur gróður að lifna, vorið er minn tími, ég elska vorið með birtunni, blíðunni og blómunum. Sólin sem blessar allt iljar,vermir verndar, vá er nokkuð yndislegra en vorið. Ég finn nú reyndar sjálfan mig æsast upp í framkvæmdagleði og hugmyndastormar geysa um allt höfuðið á mér. Vá ég er lánsöm, elskuð eins og ég er skilyrðislaust, ég elska sjálf skilyrðislaust, ég á nóg af öllu, yndisleg börn, tengdabörn og barnabörn, áhugamál, heilsu og heilbrigði.Ég elska að vera til. Megi ég vera til lengi enn.Í góðu kvæði stendur að haustið sé tími tregans, að sjálfsögðu get ég litið yfir mín fimmtíu og fimm ár og tregað sitthvað sem hefði getað farið betur, en vegna reynslu minnar, upplifunar og mistaka er ég sú sem ég er og ekki vildi ég vera önnur. Ég hefði valið ef ég ætti þess kost að sumt væri öðruvísi en það er en ég sætti mig við það sem ég fæ ekki breytt.

Ójá ég á skilið annan blómvönd, mér finnast blóm falleg.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.


Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, apríl 28, 2007

FegurðinFegurðin er einstök:

Flottur!Þessi ungi maður heitir Michael og er sonur Halldórs sem er sonur hans Svenna bróðurs.

Hann fæddist 23/3 klukkan 16:00, 19 merkur og 56 centimetrar.

Hann er ótrúlega líkur afasystur sinni fallegur, skýr, skemmtilegur og hárprúður.

Ég hef boðist til að kenna honum bróður mínum öll trixin við væntanlega spillingu hnoðrans, enda er þetta hans fyrsta barnabarn og hann veit sem er að ég er sérfræðingur í spillingu barnabarna.

Ég óska öllum sem að Michael standa til hamingju.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Það er

laugardagsmorgun. Svona ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum.

Andlitið er á sínum stað ef einhver vill vita það.

Ég er kát, mér líður vel.

Dunda mér, hangi, geri ekkert, slæpist, sveima um, dorma, og svo framvegis.

Já markmið dagsins er leti og ómennska.

Gangi mér vel

Njótum.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Andlitið

Nú þarf ég að taka mig saman í andlitinu. Og það er mikil vinna, bæði raunhæft og svo í óeiginlegri merkingu.
Nú hef ég lokið öllu sem til þarf í nuddinu nema nemaárinu þar sem ég starfa undir handleiðslu meistara. Ég er kominn með meistara en ig langar að vera hjá fleirum. Margir hæfileikaríkir menn þarna úti.
Í maí þarf ég að fá mér vinnu.
Í sumar þarf ég að vinna. Vinnan göfgar manninn!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Næstu tólf mánuði þarf ég að nudda 968 nudd, reyndar búin með hluta af þeim tímum enda búin að telja frá í nóvember.
Ég þarf að skipuleggja húsið mitt upp á nýtt. Einu sinni enn og þrífa það líka. Ég er ekki hrifin af því starfi þ.e. þrifum.
Og ég þarf og ég þarf og ég þarf.............. Þessi sögn "að þurfa" iss bara svona á einfaldan hátt er skoðun mín.
Mig langar til að halda áfram að læra en hvað? Og mig langar ekki bara að langa ég vil gera það sem mig langar.
Fyrir nokkrum árum velti ég því fyrir mér hvað ég ætti að fara að læra, var búin að einangra langanirnar, leitaði ráða hjá Torfanum mínum, svarið þar var einfalt og kom án langrar íhugunar:
"Mamma þú átt að læra það sem þú ert góð í." Ég tvíhenti því ráði í loft upp og fór í Kennaraháskólann í Þroskaþjálfun.

Af eigingirni og löngun fór ég í nuddnám.

Og nú velti ég því fyrir mér hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur næst námslega séð.

Hvað langar mig að gera?
Hvað þarf ég að gera?

Fer ekki alltaf saman.

Það sem snýr fram á höfðinu á mér fær þvott innan tíðar.

Njótum hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, apríl 22, 2007

Tölubox

Mamma átti tölubox, ég átti tölubox. Ég á ekki lengur tölubox. Það var hægt að leika sér mikið með innihald töluboxa, ég undi við þannig iðju fyrir margt löngu síðan.

Ég fór að hugsa um þessi box þegar ég tók til í fataskápum heimilisins. Einu sinni klippti ég allar tölur af þeim flíkum sem ekki voru nothæfar lengur og safnaði í box sem ég gat leitað í ef mig vantaði tölu.

Ónothæfum flíkum er hent á mínu heimili í dag.

Þegar ég er í fatatiltektarham kemur hugsunin : hætt að nota, ónýtt , má gefa.

Ef ég tel að einhver flík sem ég á og mér hugnast ekki lengur velti ég fyrir mér hvort hún sé nothæf öðrum og gef.

Hinum hendi ég.

Ég ólst upp við að farið var með flíkur í tætingu, og tætingurinn notaður meðal annars til að bólstra með húsgögn. (Ef ég man rétt)

Áður en farið var með flíkurnar var búið að taka af rennilása, tölur og annað sem nýtanlegt var.
Ég man eftir mömmu við að rekja upp flíkur og sauma annað úr þeim.
Ég man eftir að hún notaði aflagðar flíkur í tuskur til hreingerninga og afþurrkunar einnig í bætur.

Ég mundi eftir þessu þegar ég eitt augnablik velti því fyrir mér hvort ég ætti að klippa tölurnar af skyrtunni sem ég var að henda. En ég er hætt að sauma, er einhver annar sem notar nothæfar notaðar tölur, rennilása, skraut og annað sem fellur til. Ekki svo ég viti.

Svo ég hendi.


Þetta er góður dagur.

Njótum hans.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Veröldin mín að hluta
Auðvitað er veröldin mín stærri en hluti af henni er:

Þessar fallegu ömmustelpur, Andrea, Lísa og Harpa eru frábærar. Þær koma reglulega í Borgarnes til að spilla afa og ömmu.
Óliver ömmuhnúður að skoða í töskuna mína, hann dáðist ekkert að sokkunum mínum!
Hann er skemmtileg blanda af foreldrum sínum, en líkastur ömmu sinni laglegur og alltaf kátur.

Drengurinn er afar húslegur eins og amman. Ryksugan á fullu étur alla drullu .......

Eins og afinn, aldrei í óstraujaðri flík! Snuðið er góður kostur ef um áhugavert mál er að ræða.

Miðað við svipinn hlýt ég að hafa verið að syngja.

Og svo ég, ég þarf eiginlega að fá mér kellingaklippingu. Bjarki sonur minn og pabbi Ólivers sagði við mig fyrir margt löngu þegar ég var á leið í klippingu: " Ekki láta klippa þig stutt, alltaf þegar konur verða kellingar láta þær klippa sig stutt"

Bjarki hefur alltaf verið glúrinn og sannsögull.

Ekki meir að sinni.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, apríl 16, 2007

Hreinlæti

Ég dáist alltaf að einnota hönskum.
Einnota hönskum til að mynda þeim sem notaðir eru í bakaríum.

Sem sé ég brá mér í bakarí. Þar afgreiddi mig ung kona með einnota hanska á hægri hendi.
Hanskahendina notaði hún til alls sem þurfti, sótti brauðið og annað bakkelsi sem ég var að versla mér til dýrðar og fitunar.
Ef hún þurfti að nota báðar hendur, sem var stundum, notaði hún þá hanskalausu svona til stuðnings.
Allt sett í poka, hanski á annari hendi.
Sló allt sem ég keypti inn í kassann með hanskahendinni, tók við peningum með sömu hendi og gaf til baka.
Hóf að sinna næsta viðskiptavini með sama hanskann á hendinni. (Mér fannst hanskinn orðinn sjúskaður)

Ég stóð hugsi um stund, til hvers var konan með hanskann?

Aha........... Hún var að hlífa á SÉR hendinni. Ég hélt um stund að hún væri að sleppa því að bera óhreinindi milli brauða og annars sem hún þurfti að koma við. Einfalda ég.


Ég er öll í bleikum og bláum plástrum, er að læra að nota þá til að draga úr verkjum og styðja við vöðva sem eru eitthvað slappir.

Geysi spennandi meðferð.

Óliver sonarsonur ætlar að spilla ömmu sinni í dag, mér líst vel á það.

Lífið er ljúft, njótum þess.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, apríl 07, 2007

Af heilsufari og öðru sem er.

Það er gott að vera til og bjart framundan. Ég er að snúa ofanaf mér hér í Borgarnesinu eftir óvenjulegan vetur. Ekki er allt sem sýnist, ekki óraði mig fyrir öllu þessu. Mér finnst gott að sjá ekki fram í tímann, mér þykir líka gott að lifa í deginum og njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða. Og það sem er liðið er liðið og ekki alltaf á þann veg sem helst verður á kosið en svoleiðis er lífið.

Mikið sætur ömmustrákur Ágúst Haraldur birtist eins og engill af himni ofan, skammaði mig ekkert núna fyrir að vera aldrei heima, færði mér blóm sem hann hafði fundið á leið sinni. Við eigum yndælar stundir saman við kökuát, ísát, spjall og lestur. Það er óvenju gott að vera amma. Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur tvö, við erum ánægð með hvort annað eins og við erum, reyndar segir drengurinn stundum að ég sé skrýtinn, ég veit að hann er ekki að skrökva.

Tvær ömmustelpur eru staddar í Póllandi ásamt mömmu sinni, þær eru að ganga frá úti í Varsjá, setja húsið á sölu og flytja búslóð og bíl heim. Ég hlakka til að sjá þær.

Það er skrýtið að heyra ekkert í honum Torfa mínum þessa dagana en svoleiðis verður það um ókomna tíð.

Bjarki minn, Ella og Óliver eru að lækna fólk á landsbyggðinni þessa páskana. Ég er þess fullviss að Óliver leggur pabba sínum lið við sjúkdómsgreiningar.

Hlynur og Unnur eru í Stykkishólmi bæði að gæta að væntanlegu ömmubarni mínu sem Unnur ber undir belti. (eða kannski er hún ekki með belti). Hún allavega blómstrar og er einstaklega falleg barnshafandi kona, það fer henni vel að vera kona ekki einsömul. Ég er glöð að Unnur gengur með barnið, er ekki viss um að það fari Hlyni eins vel og henni að vera barnshafandi!

Soffían mín er í Taívan að læra kínversku hún er slungin kona, og heppin því ekki er hún selskapslaus þessa dagana, Villa vinkona hennar er í heimsókn hjá henni án efa skemmta þær sér vel.

Ég ælta að klæða mig upp á í dag og fara í heimsókn til Litlu hjónanna hér í Borgarnesi, litlu hjónin eru Freyr og Helena, foreldrar ömmustelpu Huldu og ömmustráks Ágústs. Njóta þess sem ég hef.

Ég rakst á þetta:

Glettur um efri árin:

Ef efri árin endast vel,
engu þarf að kvíða.
En sannast bezt að segja hér,
er seigdrepandi að bíða.

Árin líða, ekkert stanzar,
ellin færist nær og nær.
Ef í lagi, allir sanzar,
ekki að kvarta, vinur kær.


Fávizkan er fjandi slæm,
forðumst allir hana.
Biðjum okkur betri bæn,
en bíðum ekki bana.

"Húmorinn" er hikstalaust,
heilsubót sem bætir.
Endist vel og eykur traust,
auðnu einnig kætir.

Kviðlingar á kvæðakvöldum
og kærleiksríkum fundum.
Hátíðlegar helgar höldum,
á heimsins beztu stundum.

Vísurnar eru eftir Pálma Ingólfsson og fleiri.

Njótum hvers annars

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Húxi -húxi !!!!!!!!!!!

Já nú þarf ég að hugsa. Ég velti fyrir mér af hverju afmæli heitir afmæli?

Ef ég/þú mæli/r með einhverju eða mæli/r eitthvað fram þá er ég/þú að ég held að tala með einhverju eða um eitthvað.

Stundum mæli ég lengd, breidd eða hita svo ég nefni til dæmi.

Nú ef ég afmæli einhverju er ég þá ekki að tala á móti því sem mælt var.

Ef ég afmæli eitthvað sem ég hef mælt er ég þá ekki að draga til baka sem mælt var?


Ég skil sem sé ekkert í af hverju afmæli er afmæli í þeirri merkingu að verið sé að halda upp á fæðingardag til að mynda!!!!!

Ég held áfram að hugsa, en það fer mér nú svo vel.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, apríl 02, 2007

Afmæli - afmæli - afmæli - afmæli -ammæli

Hann Bjarki minn á afmæli í dag.

Hann á afmæli í dag
Hann á afmæli í dag
Hann á afmæli hann Bjarki
Hann á afmæli í dag

Enn þykir mér heldur undarlegt hve allir eldast nema ég. Kúturinn hennar mömmu sinnar orðin þrjátíu og eins árs, orðin fullorðinn. En verður alltaf mömmustrákur, þessi ungi maður fæddist ljúfur og er það enn. Mér þykir óskaplega vænt um hann, segi það trúlega ekki nægilega oft við hann en mér fer batnandi.

Ég dunda mér í Borgarnesinu, reyni að átta mig á hvar ég hef sett hluti frá mér í vetur. Ekki auðvelt því veturinn hefur verið afar einkennilegur í alla staði en hann er að verða búinn, vorið framundan svo sumar og aftur haust og vetur með öllum sínum tilbrigðum.

Þetta er fínn dagur sýnist mér á öllum ummerkjum, bjart úti og inni, bjart framundan.


Svo þakka ég Guði fyrir mitt sterka hjarta, því annars væri ég margbúin að fá hjartaáfall, svona um það bil í hverjum leik sem ég fer á. Snæfell er komið með tvo sigra gegn Kr ingum, leikur í kvöld. Ég á eftir að ákveða hvort ég tek hjartaáfallsáhættu í kvöld. Hef allann daginn til þess.

Ein spaka sem ég held upp á:

Þarna á veggnum hangir mynd af mér.
Eg man nú ekki lengur hvað eg er
þar gamall, eða hvar. Það mælir margt
með því að gleyma uppköstum af sér.


Sama tindrandi snilldin hjá honum Jóhanni S. Hannessyni.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com