Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

föstudagur, júlí 27, 2007

Dag eftir dag.

Dag eftir dag lifi ég, vakna til dagsins geri á mér morgunverkin og held út í daginn.
Þennan eina dag á ég. Svoleiðis heldur lífið áfram og ég hugsa á stundum til baka : Hvað gerði ég í gærdag, sem er þess vert að minnast á.

Mér þykir notarlegt þegar sérhver dagur líður fyrirhafnar lítið, ég geti sagt að kveldi dags: gott hjá þér Hafdís þú hefur verið góð við sjálfan þig og aðra.

Ég er þakklát fyrir allt sem ég hef og hef í dag meiri áhuga á að að bæta lífi við árin mín heldur en að bæta árum við líf mitt.
Einhver snillingurinn sagði: Megi þér auðnast að lifa alla þína ævi.

Ég vona að mér auðnist að lifa alla mína ævi.



Svo á hún Sandra frænka afmæli í dag, til hamingu með daginn verðandi Svíþjóðarfari.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, júlí 22, 2007

Tillkynning

Ég og maðurinn sem elskar mig skilyrðislaust borðuðum saman í hádeginu.
Ójá undur og stórmerki.

Kampalampa og nýupptekin jarðepli ásamt smjöri.

Dásamlegt.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, júlí 20, 2007

Alheimsundur

Já ég upplifði eitt af undrum lífsins í gær.

Hlynur sonur minn og Unnur konan hans og tengdadóttir mín, sem eiga von á sínu fyrsta barni í september, fóru í þrívíddarsónar.

Ég amman fékk að njóta þess að vera viðstödd, undursamlegt. Ég skældi þegar þau buðu mér að koma með, hélt aftur af tárunum á meðan ég horfði á litlu fyrirsætuna leika listir sínar í móðurkviði, og skældi þegar ég kom út í bíl.

Á undursamlegan máta upplifði ég eitthvað einstakt og stórfenglegt sem hrærði í hjarta mér, gleði - hamingja - þakklæti - auðmýkt, eitt stórt vá.

Fyrirsætan bar sig vel, gretti sig, brosti (já það er til mynd!) ullaði, hreyfði sig mikið, sparkaði hraustlega í mömmu sína, falleg stelpa ( þarf ekki að taka fram "alveg eins og amma sín") sem kúrði í hlýjum móðurkviði. Ég veit eitt að sá sem öllu ræður, vakir og sefur yfir henni.
Ég bíð spennt eftir að fá að halda á henni.

Það verður nú trúlega undir stífu eftirliti, börnin mín halda að ég spilli börnunum þeirra. Nú dossa ég og slæ mér á lær og bara spyr: Til hvers eru ömmur? Gruna mig um slíkt! Ég sem er miðaldra ráðsett og virðuleg fimmtíuogfimmára gömul amma.



Ég heyrði sagt í útvarpinu á dögunum að jafnaldra mín hefði fætt barn, útvarpsmennirnir gátu varla vatni haldið af hlátri, sem leiddi til þess að ég fór að húxa, húxi-húxi-húxi.
--------------Með smá tæknilegri aðstoð get ég orðið mamma 56 ára, það er á næsta ári, humm elsta barnið hefði orðið 35 ára yngsta 26 ára, hin tvö 32 og 29. Elsta barnabarnið að fermast, Gösli minn 65 ára. Ójá spurning um að hafa öldrunarlækni viðstaddann fæðinguna?
Ég stæði á sjötugu þegar kæmi að fermingu, Gösla vantaði ár eitt í áttrætt.

Ég dreg fram feldinn góða leggst undir hann og velti því fyrir mér hvort það að verða elsta mamma á Íslandi sé fyrirhafnarinnar virði?

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Soðin ýsa

Í gærkveldi sauð ég ýsu ekki eins og mamma gerði, þverskorna, heldur ýsuflök með kartöflum og smjöri, át ég svo allt sem ég hafði sett á diskinn. Einfalt og gott. Ég settist svo á meltuna fyrir framan sjónvarpið, sjónvarp er góður svæfingarmiðill.

Útundan mér, milli svefns og vöku, sá ég í eyru, tvö gul eyru. Ég kippti mér ekkert upp við þessa sýn, kannaðist við eiganda eyrnanna - fallegur rauðbröndóttur köttur sem stundum sveimar í kringum mig og mitt hús. Ég reyndi að spjalla við köttinn gula en hann hafði ekki áhuga á heimspekilegum umræðum um tilgang lífsins. Enda smekk köttur, kominn til að fá bita af ýsusporðinum sem nýsoðinn lá og beið eftir Göslaranum, ég að sjálfsögðu gaf honum ekkert enda þekkt fyrir nísku og að vera matsár auk þess sem kattareigendur í fjölskyldunni hafa tjáð mér að fiskur í fæði katta sé á stífu undanhaldi, fiskurinn hefur sem sé ekki roð í innfluttann kattarmat af öllum stærðum og gerðum. Kattarræfillinn fór því óétinn með skottið á milli fótanna frá mér og ég hélt áfram að dorma.

Vond kona ég..................................

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, júlí 16, 2007

Nú vantar rigningu

Hér á mínu svæði er sól sól sól og sumarylur. Smátt og smátt þornar allt sem þornað getur, svo nú er þörf á rigningu, ég vil gjarnan stjórnast með hvenær hún kemur og hvenær hún fer.
Minn vilji er: rigning allar nætur nánar tiltekið frá klukkan eitt til fimm, rigningin á að vera mikil og droparnir falla beint niður. Sem sé eitthvað fyrir gróðurinn á svæðinu og eitthvað fyrir alla þá ferðamenn sem taka sig saman í andlitinu við hvert tækifæri og bruna að heiman eitthvað annað en heim, því svo virðist sem frí í einhverri mynd tákni: ekki heima.

Fækkað hefur um einn hér á bæ, aðstoðarmaður múrarameistara:unglingurinn á heimilinu:elsta barnabarnið snéri til síns heima.
Þær mæðgur hafa fengið íbúðina sem þær keyptu í hendurnar og flutningur hefur staðið yfir. Það var heldur tómlegt hér í gær ekki það að hún sé fyrirferðar mikil í umgengni heldur er núna skortur á hennar hljóðu nánd.

Dömunni þótti reyndar amman vera heldur kvöldsvæf, en við erum ekki öll eins. Hún vildi hafa mig sér við hlið þegar spennan var að ná hámarki í öllum þáttunum sem hún getur ekki misst af.

Frammundan er dagur sem er góður og allt gengur upp sem ég tek mér fyrir hendur, ef ekki núna þá næst.

Lífið er yndislegt, njótum þess.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Tólfti júlí

Þá er nú komið að því eitt barnabarnið hefur elst og búin með fyrsta tuginn, sem sé Hafdís Lilja Torfadóttir er tíu ára í dag, til hamingju með daginn Hafdís Lilja. Hún er búin að telja niður lengi, ég veit sem er að brátt mun hún hætta að telja, það er í okkur konum.

Ég heyri stundum þó ég sé ekki að hlusta, í gær heyrði ég eftirfarandi því ég var að hlusta:

Eftir þrjá daga er bæði farið að slá í fisk og gesti.

Ég er alltaf að læra, enda veitir ekki af ég veit trúlega ekki nóg, en ég veit lengra en nef mitt nær. Ég veit reyndar ekkert um hversvegna miðað er við nef eftilvill vegna þess að það skagar yfirleitt fram úr andlitinu?

En ég þarf ekki að vita allt og er oft feginn að vita ekki meira en ég veit, margt af því sem ég veit er einskis nýtur fróðleikur, margt af því sem ég vissi er ekki raunverulegt í dag. Raunveruleiki minn er síbreytilegur, þekking mín líka, viskan verður bráðum ekki viska lengur heldur hluti af lífsgæðum mínum, daglegum markmiðum fólgnum í betri líðan.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Jarðarför

Inga syss sagði síðastliðin jól að hún héldi að komandi ár yrði ár hinna miklu jarðafara, hún hefur reynst sannspá.



Ég var sem sé á jarðaför í dag, föðurbróðir minn Bjarni Jónsson var borinn til moldar, fór í friði sjötíu og fjögurra ára gamall, athöfnin falleg og kaffið gott. Og svakalega gaman að sjá alla ættingjana sem ég sé svo sjaldan, harla hart að einhver skuli þurfa að deyja svo hægt sé að hittast, en ef tími er kominn til að fara þá fer maður.



Presturinn var smart, ég hjó eftir að hún sagði eitthvað á þá leið að verk Guðs væru eilíf, ekkert tekið af engu bætt við. Vá hvað það var einmitt það sem ég þurfti að heyra.

Og einhvernveginn þótti mér ekkert sorglegt við þetta fráfall því allt hefur sinn tíma dauðinn svo sannarlega líka.







The Secret mikil umfjöllun búin að vera um þá lífsspeki í vetur í kringum mig, ég fékk sendan pappír með eftirfarandi speki:



I promise myself,



To be so strong that nothing can disturb my peace of mind.

To talk health, happiness, and prosperity to every person I meet.

To make all my friends feel that there is something worthwhile in them.

To look at the sunny side of everything and make my optimism come true.

To think only of the best, to work only for the bestand to expect only the best.

To be just as enthusiastic about the success ofothers as I am about my own.

To forget the mistakes of the past and press on to thegreater achievements of the future.

To wear a cheerful expression at all times and give a smileto every living creature I meet.

To give so much time to improving myself that Ihave no time to criticize others.

To be too large for worry; too noble for anger, too strong for fear,and too happy to permit the presence of trouble.
To think well of myself and to proclaim this fact to the world,not in loud words, but in great deeds.

To live in the faith that the whole world is on my side,so long as Iam true to the best that is in me.
Christian D. Larson
Það er alltaf svo margt sem mér þykir flott, ekki alltaf auðvelt að fara eftir en ekki að síður gagnlegt og gaman að hugsa um og fara eftir.
Svo mörg eru þau orð í dag.
Njótum dagsins lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, júlí 06, 2007

Afmæli

Hér í morgundögginn í Borgarnesi er mikill friður, ég og ég erum vakandi, hinir sofa svefni hinna réttlátu. Gösli minn segir meinar og staðhæfir að þeir sem séu með slæma samvisku geti ekki sofið af því leiðir að ég er með slæma samvisku en hin þrjú með góða. Eins og fyrri daginn sel ég sögurnar hans Gösla ekki dýrari en ég keypti þær.

Tveir menn í lífi mínu eiga afmæli í dag, báðir mér mikils virði.

Gösli - til hamingju með sextíu og fjögur árin.

Hlynur - til hamingju með tuttugu og fimm árin.

Til hamingju með áttatíu og níu árin báðir tveir.

Og muna drengir mínir að sérhver dagur er góður dagur, við eigum ekki annan því dagurinn í dag er morgundagur gærdagsins og gærdagur morgundagsins. Úff endalaus speki.


Lífið er annars ljúft, rennur áfram í indælis ró, oft hef ég farið svo hratt yfir í óþolinmæði minni að ég hef misst af mörgu og yfirsést margt, hef svo oft gleymt að staldra við og njóta. Ég kann vel að meta í dag að njóta dagsins.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, júlí 01, 2007

Breiðholt

Ég vaknaði til dagsins í Breiðholtinu - þegar að ég var að alast upp á Njálsgötunni fyrir meira en hálfri öld var Breiðholt sveit eiginlega langt upp í sveit.
Í morgun sat ég út á svölum horfði á Esjuna og dásamaði með sjálfri mér og morgunkaffinu hversu heppin ég væri að lifa svona langan dag sjá allar breytingarnar enn einu sinni, ég er þakklát fyrir það.

Ég er stödd á þeim stað í lífinu að margt sem áður hafði gildi fyrir mig er nú hjóm eitt. Ég hlakka til verkefna dagsins sem er vinnan mín og í dag fylgir vinnunni minni ferð í Árbæjarsafnið. Eini gallinn þar er að ekki eru kjöraðstæður fyrir hjólastóla en en góðar aðstæður fyrir fólk, þá er svo auðvelt að yfirvinna allt ef fólk og aðstæður eru góðar ef ekki þá verður að gera það besta úr því sem er fyrir hendi.

Og lífið heldur áfram í minni veröld gott og jákvætt. Ég er elskuð eins og ég er skilyrðislaust sem mér finnst alltaf jafn notarlegt en gleymi svo oft að vera þakklát sem ég svo sannarlega er. Það kostar mig ekkert að brosa, segja takk og sýna í orði og á borði hversu vel ég kann að meta umhyggju og ástúð þeirra sem tilheyra lífi mínu.

Njótum hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com