Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hvernig líður þér í dag?

Veldu þér viðhorf.
Vertu ánægð/ur einn dag.

Leiktu þér.
Við þurfum ekki að taka sjálf okkur of alvarleg þótt við viljum standa okkur vel.

Gerðu daginn eftirminnilegan.
Gleðjum þá sem þurfa á því að halda.

Vertu til staðar.
Verum heil í hverju því verkefni sem við tökum okkur fyrir hendur.


Stolið stælt og endursamið.

Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, mars 28, 2006

Snjór

Mér þykir fagurt um að litast þegar snjór er yfir. Mér líður vel í birtu.
Mér þykir gott að vera til.

Þegar um mig sveimar andleysi og ekkert er að ergja mig í dagsins önn líður mér vel.

Mér líður vel.

Ég ætla að gera mitt besta í dag til að öðrum líði vel.

Í dag ætla ég að gera eitthvað sem ég get verið stolt af.

Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, mars 26, 2006

Sunnudagur

Að morgni dags er oft gott fyrir mig að skoða daginn framundan líkt og það er gott fyrir mig að skoða daginn og gjöröir mínar að kveldi dags.
Hvað liggur fyrir í deginum? Hvað get ég gert til að gera hann góðan? Einfalt ekki satt?

Nú í dag liggur fyrir að sinna ömmustelpunum mínum, heimilinu og sjálfri mér.
Ömmustelpurnar heimilið og ég falla undir sama hatt í þessu tilviki. Ég vel viðhorf mín og framkomu og ef ég vel að vera í góðu skapi og gera alla hluti eins vel og ég get hef ég þá trú allt gangi mér í haginn. Ef ég sinni ömmustelpunum af alúð er ég líka að rækta sjálfan mig, ef ég sinni daglegum skylduverkum af alúð er ég líka að rækta sjálfan mig, því allar gjörðir mínar endurspegla mig og mína líðan.
Ömmustelpurnar stækka og þroskast önnur er að vera dama verður tólf ára nú í apríl hin níu ára í júlí. Tíminn þýtur áfram og ég gleymi svo oft að staldra við og njóta.

Ísfirðingurinn góði benti réttilega á að tími væri á fartölvu svo ég gæti hellt úr minni andlegu ruslafötu hvar og hvenær sem er, ég gerði að sjálfsögðu eins og hann sagði. Hlýðin ekki mjög skýr en hlýðin.


Ég heyrði frá Bing Xin í gær hún er í góðu yfirlæti á grænni eyju í Taivan ásamt ástmanni sínum við köfun – yndislegt að lifa og leika sér með þeim sem maður elskar. Ég sakna hennar - falleg ljúf með létta lund – já ég er heppin, lánsöm, þakklát fyrir þær gjafir sem mér eru gefnar.


Í dag ætla ég að brosa til allra sem ég hitti.


Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, mars 21, 2006

Vor.

Þar sem ég sit við tölvuna mína og hugsa um daginn fram undan og það sem býr í honum er ég glöð yfir að fá annað tækifæri á á vori.
Í það minnsta er ekki vorlegt um að litast út um gluggann. Sem þýðir að bráðum kemur aftur vor, þá verður aftur hlýtt og bjart. Það er nú orðið vel bjart í það minnsta á vökutíma mínum.

Ég er búin að telja mér trú um að ég sé haldin skammdegisþunglyndi einnig margir frómir læknar og aðrir hámenntaðir spekingar.
Ég hefi unað sæmilega sátt við mitt.

Nú sýna rannsóknir að skammdegisþunglyndi er ekki til, allavega er skammdegisþunglyndi ekki tengt birtumagni.

Nú hef ég sem sé gengið með ólæknandi sjúkdóm í þrjátíu ár sem er ekki til, sem þýðir að ég er einfaldlega móðursjúk.

Hvað sem það nú er.
Þarf að finna mér nýja sjúkdómsgreiningu, ekki dugar að vera sjúkdómalaus.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, mars 20, 2006

Ánægja.

Ég velti því stundum fyrir mér í hverju ánægja er fólgin. Allavega ekki í Oragrænum baunum.
En sumt er ég alltaf ánægð með.

Svo sem:

Ég get alltaf verið ánægð með að vakna til dagsins.(Ekki sjálfgefið)
Ég get alltaf verið ánægð með að vera sæmilega heilsuhraust andlega og líkamlega..(Ekki sjálfgefið)

Ég get alltaf verið ánægð með að hafa vinnu..(Ekki sjálfgefið)

Ég get alltaf verið ánægð með veðrið. ( Ræð engu um það hvort eð er)

Ég get alltaf verið ánægð með að vera glöð..(Ekki sjálfgefið þarf að vinna í því daglega)

Ég get alltaf verið ánægð með sjálfan mig..(Ekki sjálfgefið að finna alltaf það jákvæða í fari mínu)

Ég get alltaf verið ánægð með börnin mín og barnabörn..(Ekki sjálfgefið)

Ég get alltaf verið ánægð með elska og vera elskuð. ( Dagleg ævilöng vinna sem skilar sér)
Ég get alltaf verið ánægð með manninn sem elskar mig eins og ég er..(Ekki sjálfgefið)

Ég get alltaf verið ánægð með vini mína..(Ekki sjálfgefið vináttu þarf að rækta)

Margt margt fleira er ég ánægð með í lífi mínu sem of langt væri upp að telja.

Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, mars 18, 2006

Ora grænar baunir.

Já há og humm, ég hef verið með flensu legið nær dauða en lífi í eymd volæði og aumingjaskap en hef lítið látið það trufla mig ef ég hef komist fram úr á annað borð.
Ég fekk enga löngun til að s.... á höfuðið á neinum svo vart er ég með fuglaflensuna góðu.

Já ---- fuglaflensan.
Ora grænar baunir.

Hefi tekið þá ákvörðun að safna Oragrænum baunum í dós, því að í ljósi væntanlegrar fuglaflensu verður ekkert hægt að eta.
Ekki kjúklinga, ketti, svín eða almennt nokkuð ket. Þá er nú spurningin með grænmetið, í það minnsta farfuglar spyrja ekki leyfis hvar þeir mega skíta ( þeir virða ekki einu sinni tilkynningaskyldu!!!!!!) svo eitthvað af úrgangi þeirra gæti lent á ökrum og hver veit nema allur gróður sé undirlagður af fuglaflensuveirum( hef ekki séð neina grein um rannsóknir á því sviði)

Ket af fiskinum í sjó og vötnum? Nei snefilefni jarðar renna til sjáfar, verðugt rannsóknar efni þar.
Mér finnst einhvernveginn rökrétt að fyrst fuglaflensa getur smitast í menn geti hún smitast í allt lifandi. Nóg um það. Þarf að flýta mér í Bónus og kaupa upp birgðirnar af Oragrænum.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, mars 09, 2006

Amstur.

Ég virðist ætla að halda mig við 60-80 tíma vinnuviku.
Það bendir til að mynda til að:

Ég sé vinnualki.
Ég kunni ekki að segja nei.
Ég sé vinnusöm.
Ég eigi mér ekki líf utan vinnu.
Ég haldi að ég sé ómissandi.
Ég sé bara biluð.Ég veit ég er vinnusöm, en neita að vera vinnualki. Ég kann að segja nei þó svo ég notið þá kunnáttu sjaldan. Ég á mér líf utan vinnu og ýmis áhugamál þar að auki.
Yfirfullir kirkjugarðar hafa sannfært mig um að hvorki ég né aðrir eru ómissandi.

Niðurstaðan er sem sé sú að ég er biluð. Allavega sitthvað í mér sem virkar ekki sem skyldi.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, mars 08, 2006

Sárt.

Sárt bítur soltin lús.

Já mamma gleymdi að nota og kenna mér þennan málshátt. Ég myndi nefna þetta við hana ef hún gæti skilið mig. Ég sem alin er upp við málshætti, orðatiltæki og danskar slettur er dulítið sár. En tek mig til í andlitinu þegar í stað og tileinka mér þennan málshátt og bæti honum í safnið mitt.

Læt ekki svona dýrgrip fram hjá mér fara.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, mars 06, 2006

Obbobb.

Ég er að lesa um oddhent ljóð mér til dýrðar og uppljómunar, það góða við svona ljóðalestur er að hann tekur stutta stund. Tefur mig ekki frá hvíldinni langþráðu.
Sýnirhorn:

Oddhent telst ljóð vera ef annar bragliður allra ljóðlina ríma við endarím frumlína.

Vísnaþraut ég vonda hlaut
vaskur þaut í brasið
heilann braut en hugsun þraut
hnugginn laut í grasið

Matur lokkar fagran flokk
fær er kokkamaður,
enginn okkar stjórnar strokk
né stígur rokkinn glaður

Völlum á æ standa strá
stör er hjá í felum
orf og ljá nú engir sjá
allir slá með vélum

Kvinnan góðan yrkir óð
er hún fróð um listir
síðan fljóðið semur hnjóð
sjálf í ljóðin þyrstir.

Allvel hér nú húsin ver
halur sver og undinn
góður er þá góla fer
geysi þver hans lundin.

Öðrum býður örg í stríð
ekkert líður svanninn
oft á tíðum yrkir níð
aldrei blíð á manninn.

Ef lesturinn væri lengri en fjórar línur í senn tel ég líkleg að ég sofnaði svefni hinna þreyttu og réttlátu.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, mars 05, 2006

Skömm stund.

Eftir skamma stund skunda ég til vinnu. Vinn svona tólf tíma ef allt er í sómanum annars lengur.
Svo kemur fríið ég fer í fríið ég fer í fríið. Það er að segja ef ég fer ekki á aukavakt, tveir dagar í frí væru vel þegnir. Svo kemur þetta allt saman í ljós eins og gengur.
Það gefur auga leið að lítið annað gerist í lífi mínu, nema í hausnum á mér, brestirnir verða reyndar áberandi þegar hvíldin er ekki næg.
En eins og fyrri daginn get ég sofið þegar ég er dauð.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, mars 04, 2006

Dugleysi

Það er í mér eitthvert dugleysi, almennt og yfirleitt er ég dugleg ekki duglaus. En nú þyrmir yfir mig getuleysi og nennan er alls ekki virk. Eftilvill er þetta slen, vetrarslen. Eða bara eitthvað annað slen. Hvað er slen? Ástandslýsing!!!
Ef ég horfi á málið frá öðrum hliðum er næsta víst að ég er að gera of miklar kröfur(kannski) til sjálfrar mín.
Ég sem sé ætlast til þess af sjálfri mér að ég sé hugmyndarík og sposk í hugsun eftir tólf og þrettán tíma vinnudag. Ég er trúlega skrýtin ------------ svona á gráu svæði.

En hugsanir mínar og skoðanir eru minn raunveruleiki í dag.
Hef ekki annan raunveruleika.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, mars 02, 2006

Andleysi.

Andleysi - and leysi. Ef and þýðir að anda kafna ég fljótlega.
Að draga andann að sér. Hvaða andi skyldi þetta nú vera? Draga hann að mér??????????????????? Með hverju og hvernig?
Andinn kom yfir mig. Einn andi margir andar.
Er andi eitthvað áþreyfanlegt?
Ég var/er með öndina í hálsinum.............. svona venjulega stokkönd?

Brabrabrabra.


Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com