Síðasti dagur ársins
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá jólagjöfina frá henni dóttur minni. Þveglainniskór fyrir okkur Gösla. Sú 27 ára hélt vart vatni af spenningi sem sé dóttirin. Inniskóna góðu hafði hún fundið í Taívan, munað eftir gömlu röfli móður sinnar, eitthvað á þá leið að við (ég og börnin fjögur) yrðum sneggri við gólfþvott ef allir væru með þvegla á fótunum, fyrsti með sápuvatn, næsti með skolvatn og svo framvegis. Núna hartnær tuttugu árum síðar er hugmynd mín komin á markað í Taívan. Trúlega getur ekkert toppað þessa jólagjöf.
-----
Síðasti dagur ársins 2006 er kominn til að fara, vá hvað þetta er undarlegt, er ekki einfaldlega allt á sama veg - komið til að fara?
Við unnum í gær og var það vel, það gladdi mín augu að sjá einn keflvíkinginn spila í sokkabuxum, svörtum, nei annars hefur þetta trúlega verið svona leggings, humm. En leggirnir voru aldeilis ekkert fyrir augað trúlega hefur það ekkert eða lítið með síðbrókina svörtu að gera. Persónulega hefði ég vilja hafa gaurinn í einhverju meira töfrandi, sísvona eins og bleikar buxur með glimmer ívafi. En fáir eru víst á sömu skoðun og ég.
Á leiðinni í Hólminn tókum við gamla vindlapakkaveðmálið hans Gösla, hann veðjar alltaf upp á vindlapakka.
Nú heimasætan, sú eldri, leifði sér þau óskup að telja að Keflvíkingar ynnu leikinn, við eldgamla settið íhuguðum að láta hana labba en í ljósi þess hversu sæt hún er fékk hún far í þriðja farrými eðalvagnsins ljóslausa.
Gamli vildi meina að Snæfell sigraði með 7 stigum en undirrituð taldi líkur á að tveggja stiga sigri yrði landað eftir framlengingu.
Ekkert okkar hafði rétt fyrir sér svo barnabarninu (sem var lengst frá réttum úrslitum ) var dæmdur ósigur. Hún veltir nú fyrir sér að kaup vindlapakkann eftir sex ár þegar hún verður orðin átján ára. Með því skilyrði að amman borgi!
Yngri heimasætan var útkeyrð þegar hún birtist í gærkveldi, hafði farið í sund með vinkonu sinni hér, síðan í kjötsúpu, þráaðist samt við að fara að sofa en það var nú ekkert í fyrsta sinn og örugglega ekki í það síðasta.
En nú sofa þær sætt og rótt, fallegar og vel gerðar stelpur.
AfiGösli sefur líka hroturnar eru vinalegar og veita mér öryggi og hlýju.
Kettirnir sem eru hér í pössun og góðu yfirlæti, láta sleikjulega við mig í von um að ég sjóði fiskmeti handa þeim, sem verður ekki því þeir kunna sér ekki magamál.
Opna kyrrðarsporin:
„Lærðu að sætta þig við að þú sért ekki fullkominn frekar en aðrir. Það sem skiptir máli er að gera sér ljóst í hverju gallarnir felast“
Humm og da.
Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.