Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

sunnudagur, desember 31, 2006

Síðasti dagur ársins



Á myndinni hér fyrir ofan má sjá jólagjöfina frá henni dóttur minni. Þveglainniskór fyrir okkur Gösla. Sú 27 ára hélt vart vatni af spenningi sem sé dóttirin. Inniskóna góðu hafði hún fundið í Taívan, munað eftir gömlu röfli móður sinnar, eitthvað á þá leið að við (ég og börnin fjögur) yrðum sneggri við gólfþvott ef allir væru með þvegla á fótunum, fyrsti með sápuvatn, næsti með skolvatn og svo framvegis. Núna hartnær tuttugu árum síðar er hugmynd mín komin á markað í Taívan. Trúlega getur ekkert toppað þessa jólagjöf.

-----

Síðasti dagur ársins 2006 er kominn til að fara, vá hvað þetta er undarlegt, er ekki einfaldlega allt á sama veg - komið til að fara?





Við unnum í gær og var það vel, það gladdi mín augu að sjá einn keflvíkinginn spila í sokkabuxum, svörtum, nei annars hefur þetta trúlega verið svona leggings, humm. En leggirnir voru aldeilis ekkert fyrir augað trúlega hefur það ekkert eða lítið með síðbrókina svörtu að gera. Persónulega hefði ég vilja hafa gaurinn í einhverju meira töfrandi, sísvona eins og bleikar buxur með glimmer ívafi. En fáir eru víst á sömu skoðun og ég.


Á leiðinni í Hólminn tókum við gamla vindlapakkaveðmálið hans Gösla, hann veðjar alltaf upp á vindlapakka.


Nú heimasætan, sú eldri, leifði sér þau óskup að telja að Keflvíkingar ynnu leikinn, við eldgamla settið íhuguðum að láta hana labba en í ljósi þess hversu sæt hún er fékk hún far í þriðja farrými eðalvagnsins ljóslausa.


Gamli vildi meina að Snæfell sigraði með 7 stigum en undirrituð taldi líkur á að tveggja stiga sigri yrði landað eftir framlengingu.





Ekkert okkar hafði rétt fyrir sér svo barnabarninu (sem var lengst frá réttum úrslitum ) var dæmdur ósigur. Hún veltir nú fyrir sér að kaup vindlapakkann eftir sex ár þegar hún verður orðin átján ára. Með því skilyrði að amman borgi!





Yngri heimasætan var útkeyrð þegar hún birtist í gærkveldi, hafði farið í sund með vinkonu sinni hér, síðan í kjötsúpu, þráaðist samt við að fara að sofa en það var nú ekkert í fyrsta sinn og örugglega ekki í það síðasta.





En nú sofa þær sætt og rótt, fallegar og vel gerðar stelpur.





AfiGösli sefur líka hroturnar eru vinalegar og veita mér öryggi og hlýju.





Kettirnir sem eru hér í pössun og góðu yfirlæti, láta sleikjulega við mig í von um að ég sjóði fiskmeti handa þeim, sem verður ekki því þeir kunna sér ekki magamál.





Opna kyrrðarsporin:


„Lærðu að sætta þig við að þú sért ekki fullkominn frekar en aðrir. Það sem skiptir máli er að gera sér ljóst í hverju gallarnir felast“





Humm og da.





Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, desember 30, 2006

Kyrrðarstund

Morgnar og nætur eru lausir við ys og þys dagsins.


Ég gerði eins og hún nafna mín Þórðardóttir og opnaði Kyrrðarssporsbókina mína þegar ég fór fram úr rúminu, þar stendur á blaðsíðu 286:

„Yfirleitt æðrast fólk og örvæntir vegna þess að það missir stjórn á sjálfum sér.“

„Demantur er kolamoli sem þroskaðist við mikið álag.“

Nú og nú.
Þá og þá.
Hann sonur minn lét hafa fyrir sér þegar hann fæddist og líka þegar hann dó.

Skrýtið þetta líf, ég hef oft velt fyrir mér tilgangi lífsins bæði á góðum stundum og slæmum, skil þó ekki neitt enda þarf ég ekki að skilja neitt.

Ég þarf að sinna tengdadóttur minni og sonardætrum, styðja þær á erfiðum stundum. Vera til staðar, halda áfram að lifa lífinu eins og það er. Engu verður hvort eða er breytt, gærdagurinn er liðinn og morgundagurinn óljós.

Svo eins og alltaf áður hef ég daginn í dag, ég bið Guð um að leiða mig og mína gegnum daginn í kærleika sínum. Verði hans vilji ekki minn.

Ég og Karó ætlum í Hólminn í dag að fylgjast með leik Snæfells og Keflavík, það verður gaman án efa, stelpan verður æst og getur frætt ömmna um gang mála þegar hún skilur ekki hvað er um að vera á vellinum. Nafna nennir ekki á leik með okkur eða í það minnsta sagði hún svo í gærkveldi, henni finnst stundum amman ekki nægilega ráðsett og virðuleg. Nokk er mér sama, hnuss og fuss, fullt af ráðsettum og virðulegum sleikjóömmum í henni versu. En ég er og verð ekki ein af þeim. Gott hjá mér.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, desember 28, 2006

Torfi Freyr


Uppáhaldslagið hans sonar míns til margra ára:

Prins Póló
Mitt líf er ekki beisið og tilbreytingaleysið hrikalegt,
Ég sést ekki oft í landi því ég er alltaf úti á sjó.
Og ég er talsvert þrekinn stór og saman rekinn glæsilegt
Þótt fæði mitt sé einfallt gosdrykkir og prins póló.
En þegar við í landi þykjumst vera í standi
Til að sletta klaufunum úr,
Þá fer ég og kaupi mér prins póló
Þá uppnefna menn mig í moll og dúr

1 og 2 og

Prins póló það er meiri gæinn þessi Prins Póló
Hámar allan daginn í sig prins póló
Hvernig þolir maginn allt það prins póló mér er um og ó.

Á herðum er mér vandi því ég er ómissandi hópnum í
Þeir kalla á mig ef þarf að lemja einhvern leiðinda hró
Ég látinn er í friði sem ísjaki út á miði í kurt og pí
Og ef að ég er blankur gefa þeir mér prins póló.

En þegar við í landi þykjumst vera í standi
Til að sletta klaufunum úr,
Fer ég og kaupi mér prins póló
Þá uppnefna menn mig í moll og dúr.

1 og 2 og

Prins pólí það er meiri gæinn þessi prins póló
Hámar allan daginn í sig prins póló
Hvernig þolir maginn allt það prins póló mér er um og ó.

Ef áhöfninn er saman því þá er meira gaman alls staðar
Það þarf svo margt að reyna þar til við förum á sjó.
Við leggjum okkur hart í að koma okkur í partý og kvennafar
En mér er svo sem sama ef ég fæ Prins póló.

Svo ná þeir sér í skvísur sem líta út eins og hnísur
Upplagðar í gleðiskap og þjó
Ég fer og fæ mér prins póló
Þá uppnefna þau mig í einum kór.

1 og 2 og

Prins póló það er meiri gæinn þessi prins póló
Hámar allan daginn í sig prins póló
Hvernig þolir maginn allt það prins póló mér er um og ó.

Á sveitaball við fórum og birgir vel við vorum hvað um það.
Við innganginn stóð löggan og var með nöldur og pex
Við komust allir inn en ég var handekinn og þeir leituðu að
Víni en fundu bara súkkulaði húðað kex.

En þegar við í landi þykjumst vera í standi
Til að sletta klaufunum úr,
Fer ég og kaupi mér prins póló
Þá uppnefna menn mig í moll og dúr.

1 og 2 og

Prins póló það er meiri gæinn þessi prins póló
Hámar allan daginn í sgi prins póló
Hvernig þolir maginn allt það prins póló mér er um og ó.


Höfundur texta: Þorsteinn Eggertsson
Höfundur lags: Norskt Pönklag


Njótum hvers annars

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, desember 27, 2006

Það sagði mér enginn að lífið yrði auðvelt...

Erfiðleikar lífsins liggja ekki alltaf ljósir fyrir, ég var að hugsa: væri betra að vita ævina alla og geta búið sig undir blíðu og boðaföll lífsins. Vita í hverju hamingjan væri fólgin. Vita hvernig verjast ætti áföllum. Sveima um frá degi til dags vitandi hvað gerist næst, vita þar af leiðandi hvernig bregðast skuli við.

Ég lærði ung að setja undir mig herðarnar og halda áfram. Svona haltu kjafti og haltu áfram leið – vissulega skilaði þessi aðferðafræði mér því að ég gat lifað af. „Það sem ekki drepur þig herðir þig. Þetta er hluti af því að verða fullorðin.”

Margt er augljósara núna þegar ég sit dag eftir dag og sífra linnulaust um sömu hlutina. Snýti mér og slefa á öxlum þeim sem styðja mig skref fyrir skref.

Ég missti föður minn af slysförum 1969, börnin mín tvö yngri misstu föður sinn 1989, ég missti son minn nú á dögunum.

Á sínum tíma, ef minnið svíkur mig ekki, kom prestur heim og tilkynnti mér lát föður míns, svo var jarðaför, lífið hélt áfram og ekkert talað. Ég beitt sömu aðferð við börnin mín fjögur árið 1989.
Af þessu lærði ég. Og ég er að læra. Ég veit að ég þarf að takast á við sorgina og styðja þá sem eru mér kærir til að gera slíkt hið sama, ég hef þó lært ekki með mýkstu aðferðinni en lært samt.

Núna finnst mér gott að tala.
Það er gott að fá orðalaust knús.
Núna finnst mér gott að hlusta og heyra.
„Við eigum þó hvort annað” er ómetanlegt.
„Það er gott að þú gast sofið mamma mín”
Það er gott að heyra „Mér þykir vænt um þig”.

Núna finnst mér gott að þegja.
Núna þykir mér notarlegt að vera föðmuð.
Það er gott að vita af fólki nálægt sér.
Það er gott að vera ein.
Mér finnst gott að láta halda utan um mig.
Mér finnst gott að gráta.
Mér finnst gott þegar mér er sýnd samhygð.
Mér finnst gott að setja sundurlausar hugsanir mínar á blað.
Mér finnst gott að eiga góða að.

Ég sit og ilja mér við minningar, hlæ og græt.

Takk fyrir þennan tíma,
takk fyrir brosið þitt.
Þú hefur sól og sumar,
sent inn í hjartað mitt.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Torfi Freyr


Torfi og Renata konan hans á góðum degi sumarið 2005.






Torfi að taka upp afmælispakka á þrjátiu og þriggja ára afmælisdaginn tólfta september síðastliðinn.
Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, desember 26, 2006

Jóladagur

Jóladagur að kveldi kominn.

Hér á bæ safnast fjölskyldan saman á jóladag, mikið spilað hlegið gert grín og borðað, búið að vera svo lengi. Við vorum óvenju fá í dag.

Þegar Torfi Freyr flutti með fjölskyldu sína til Póllands og hóf nám í sálfræði lá það fyrir að þau kæmu ekki hingað á jóladag í ár. Við gamla settið ætluðum út um áramótin.

Svo breytist allt í einni svipan. Það sló mig í dag þegar ég horfði á tengdadóttir mína og sonardæturnar tvær að eitthvað væri ekki í lagi.

Dagarnir undanfarið hafa liðast áfram í móðu, óljósir, dimmir, gleðisnauðir.

En lífið heldur áfram. Einhverntíma kemur sátt.


Ég er á þeirri skoðun að foreldrar eigi ekki að lifa börnin sín.
Ég er á þeirri skoðun að engin eigi að taka sitt eigið líf.

Mínar skoðanir hafa ekkert gildi, en ég hef þær. Ég hef litið bjartari daga, en eins og sólin sem hækkar á lofti örlítið dag hvern, kemur til með að birta til í lífi mínu. Ekkert verður þó eins.

Ég er þakklát fyrir þær gjafir sem mér hafa verið gefnar, og geta verið til staðar fyrir þá sem þurfa á mér að halda.


Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, desember 24, 2006

Viljinn

Einhvers staðar stendur:

"Verði þinn vilji"

Ég er þakklát í hjarta mínu fyrir að geta beðið til Guðs míns oft á dag og sagt frá mínum innstu hjartans rótum: "Verði þinn vilji ekki minn"

Ég hef eigin vilja, sem ekki hefur alltaf leitt mig veg velsældar. Núna sit ég og íhuga vilja Guðs.

Var það vilji Guðs að kalla frumburð minn til sín þegar hann var að hefja lífsgöngu sína inn í sumarið?
Tók hann sonur minn líf sitt í vilja Guðs eða eigin vilja?

Undanfarið hef ég verið auðmjúk, vanmáttug og ráðvillt, ekki síst þakklát fyrir að hafa falið líf mitt og vilja Guði mínum.

Vilji minn er fullur eigingirni og sjálfselsku, ég hefði ekki valið að vera í þessum sporum sem ég er í núna.

Ég hefði valið að:

Einhver önnur mamma missti son sinn.

Einhverjar aðrar sonardætur væru föðurlausar.

Einhver önnur tengdadóttir væri harmi slegin.

Einhver önnur börn en mín hefðu misst elsta bróður sinn.


Í mínum vilja hefði ég kosið að leiða hremmingar yfir aðra til að hlífa sjálfri mér og mínum. Minn sjálfmiðaði vilji er mér ekki til góðs.

Ég er þakklát fyrir að valsa ekki um í eigin vilja.

Ef það er ekki gott þá er það ekki Guð.

Ég trúi á Guð en ekki trúarbrögð.

Ég hef þá trú að Guð sé góður, kærleiksríkur og almáttugur.

Njótum hvers annars, ég vissi ekki að ég hefði svona lítinn tíma.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, desember 23, 2006

Sorgin gleymir engum

Ef ég hefði bara sagt honum oftar að mér þætti vænt um hann.
Ef ég hefði oftar knúsað hann.
Ég vildi að ég hefði verið betri mamma.
Ég vildi vera honum góð.
Ég hefði tekið frá honum alla erfiðleika, hefði ég getað.
Ég hefði átt að fara til hans, taka hann í fangið og segja honum að allt yrði í lagi.

Ort hefur verið:


Við spyrjum drottin særð, hvers vegna hann
hafi það dularfulla verkalag
að kalla svona vænan vinnumann
af velli heim á bæ um miðjan dag.

Og þó, með trega og sorg, skal á það sæst,
að sá með rétti snemma hvílast megi
í friði, er hafði, fyrr en sól reis hæst,
fundið svo til, að nægði löngum degi.

Jóhann S. Hjálmarsson

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, desember 22, 2006

Kyrrðarspor

Að vera fær um að fyrirgefa
sjálfum sér er jafn mikilvægt
og að öðlast fyrirgefningu
annara

Það er erfitt að njóta dagsins og lífsins þessa dagana þessvegna er svo mikilvægt að við njótum hvers annars.

Eins og Gösli minn segir svo oft þegar lífið er erfitt okkur:

Við höfum þó hvort annað.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, desember 21, 2006

Þar sem englarnir syngja....

Þar sem englarnir syngja sefur þú.
Sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum,lifum í trú.
Að ljósið bjarta skæra.
Veki þig með sól að morgni.
Veki þig með sól að morgni.


Drottinn minn faðir lífsins ljós.
Lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert,mín lífsins rós.
Tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Þú vekur hann með sól að morgni.


Faðir minn láttu lífsins sól.
Lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta.
Vekja hann með sól að morgni.
Vekja hann með sól að morgni.


Drottinn minn réttu sorgmæddri sál.
Svala líknarhönd.
Og slökk þú hjartans harmabál.
Slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Svo vaknar hann með sól að morgni.


Farðu í friði vinur minn kær.
Faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær.
Aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
Svo vöknum við með sól að morgni.
Svo vöknum við með sól að morgni.
Svo vöknum við með sól að morgni.

Nafn á lagi :Kveðja
Höfundur :Bubbi Morthens

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, desember 20, 2006

Torfi Freyr Alexandersson

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, desember 19, 2006

Lífið er ekki alltaf kyrrt.

Við skulum kveikja á kertum.

Við skulum biðja:

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt
breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Njótum hvers annars

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, desember 17, 2006

Landnámssetrið

Við gömlu hjónin ákváðum að gera okkur dagamun og fara út að borða, uppdressuð og sjænuð frá toppi til táar. Hringdum í Landnámssetrið fengum borð, byrjum að skvera okkur til. Fínasta pússið dregið fram, baðvatn notað óspart, handklæði, burstar, greiður og skeggsnyrtir reyndar vildi Göslarinn ekki nota nefháraklippur svo ég notaði þær bara sjálf. Enda hrædd um að löng svört hár vingsandi út í loftið yrðu til travala við væntanlegt át. ( Úff sárt)
Tugþúsunda virði af kemísku spartli var brúkað á mitt allt að því fimmtíuogfimm ára andlit, (Þar eru leifar af gamalli æskufegurð) hárið tætt og reytt þar til undraverðum árangri var náð. Toppaði smurninguna með að hjúpa mig ómótstæðilegum ilm úr fallegu glasi sem mér hafði áskotnast á þessari öld. Sparigallinn dreginn á íðilfagra skrokka okkar hjóna og út í bíl héldum við, tveggja tíma hörku vinna lá að baki.
Þegar komið var á staðinn, Landnámssetrið góða hér í Borgarnesi var okkur vísað til sætis á efri hæð hússins (ca 45-50 tröppur), eftir ekki svo langa stund kom ung stúlka og bauð okkur fordrykk því bið yrði á að við kæmumst í matinn. Við vildum að gömlum sveitamanna sið vita hversu lengi við ættum að bíða. "Sko" sagði stúlkan:" Fyrst bíðum við eftir að hópurinn niðri komi sér fyrir og svo megið þið fara niður og ná ykkur í mat (Jólahlaðborð var á boðstólum)svo kemur að ykkur"
Lengdist nú andlitið á uppskinnuðum hjónunum. Við báðum stúlkuna að efa okkur smátíma til að hugsa málið. Hummmm og hummmmmmmm.

Ein ferð í forrétt= 90 tröppur í hringstiga
Tvær ferðir í forrétt= 90 tröppur í hringstiga
Smjörið gleymdist=90 tröppur í hringstiga
Ein ferð í aðalrétt= 90 tröppur í hringstiga
Önnur ferð í aðalrétt=90 tröppur í hringstiga
Ferð í eftirrétt=90 tröppur í hringstiga
Ferð til að ná í kaffi=90 tröppur í hringstiga

Fyrir þetta áttum við að borga 10 þúsund krónur, við ákváðum að þetta væri fullmikið fyrir að labba upp og niður stiga í ótiltekinn tíma. Yfirgáfum svæðið.

Lokað var í íþróttahúsinu, þar sem tíminn í tröppuþreki kostar bara 450 krónur á mann.

Hugsað á nýjan leik:

Heim í ýsu?
Hyrnan?
Skeljungur?
Venus, létum vaða urðum ekki fyrir vonbrigðum.

Get ekki mælt með Landnámssetrinu sem matsölustað því ekkert fengum við að borða, eftilvill er það aldrinum og þrettánsentimetra háum hælum að kenna að við höfðum ekki döngun í okkur í tröpputrampið.

Njótið dagsins lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, desember 07, 2006

Ýmislegt

Ég er hrifin af hádegismat á 230.-krónur.

Ég er ekki hrifin af konum sem ganga prumpandi um fyrir framan mig.

Ég er að fara í próf á eftir það er skemtilegt.

Ég styð alla þá sem nöldra yfir stefnuljósanotkunarleysi. Ég er með skoðanir á þeim málum.

Ég þarf að léttast um fimm kíló, mér finnst það ekki smart.

Ég elska að gefa og kaupa jólagjafir en ég þoli illa búðarráp.

Mér þykir vænt um fólk sem er fíbbl af Guðs náð.

Ég er fegin að ÞURFA ekki lengur að kaupa jólagjafir, ég hlakka til að velja og hugsa um leið hlýlega til þeirra sem gjöfina eiga að fá.

Ég fer kát út í daginn.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com