Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

föstudagur, febrúar 22, 2008

Kreppugrautur

Minn uppáhaldsgrautur er hafragrautur. Nú í dag þegar ég ræð, vel ég á stundum hafragraut elda hann handa okkur elskendunum í Borgarnes. Og er elskuð meira fyrir vikið.
Hafragrautur var daglegt brauð í uppeldinu og einatt hræringur. Ég hét því að borða aldrei aldrei hafragraut þegar ég kæmist til vits og ára, stóð ekki og stend ekki við það fremur en marg annað.

Hafragrautur

Hafragrautur er spónamatur (Spónamatur er samheiti yfir graut, skyr, ábrysti, súpu og fleira sem hefð er fyrir að étið sé með skeð. Nafnið er dregið af því að áður en eiginlegar skeiðar bárust til Íslands, þá voru notaðir spænir í staðinn, eins konar skeiðar sem voru skornar út, gjarnan úr dýrahorni. Spónamatur var yfirleitt étinn úr öskum fyrr á tíð, en nú orðið hafa skálar tekið við.) eða grautartegund, uppskriftin er:

1 dl Hafragrjón
2 dl vatn
1/2 tsk salt

Aðferð

Öllu blandað saman í pott og soðið í nokkrar mínútur.

Svo má bragðbæta hann:

Hveitiklíð til að mýkja hann
Bananar
Sykur og kanil eða kanilsykur
Sulta
Fjallagrös
Mjólk eða skyr
Ávexti, rúsínur, bláber, epli o.s.frv. (oft er settur kanilsykur með eplum)

Gösli minn borða slátur með sínum graut bæði súr og nýtt. Mér finnast hinsvegar bananar unaðslegir út á grautinn.

Ódýrt hollt og næringarríkt kemur þar af leiðandi sterkt inn í kreppuna. Kannski verður bara engin kreppa ef við öll sem eitt förum að fara betur með allt sem við eigum.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Kreppa og hjal.

Kreppan, kreppan og kreppan.

Og þá er að segja upp öllum blöðum og tímaritum, öllum sjónvarpsáskriftum, hætta að leigja myndir út á vídeóleigu.
Hætta að kaupa dvd myndir, hætta að kaupa bækur.

Drífa sig á bókasafnið, þar eru dvd án endurgjalds, bækur og fleira fyrir ársgjald á kr. 1300.- fyrir fullorðna, þeir sem eiga börn eða gamalmenni að, nota kortin þeirra.

Dótla mín segir að bækur eigi ekki að vera einlesnar, látum bækurnar okkar ganga manna á milli.

Nú á bókasöfnum er horn fyrir gjafabækur, gefa og fá gefið. Umda.

Svo er hægt að koma sér upp ég lána þér og þú lánar mér kerfi kringum allt mögulegt.

Jæja eða taka upp á því að tala saman í stað þess að horfa á sjónvarp saman.

Telja saman hve sparnaðurinn er mikill á mánuði taka frá og setja peninginn undir koddann (í eitthvað brunahelt) ef bankarnir fara á hausinn og við töpum peninunum sem við eigum þar.

Töpum við ekki líka skuldunum?

Jæja, nú ætla ég að setja alla brauðafganga inn í ofn og þurrka þá, mylja síðan og þá á ég rasp. En endurnar svelta frá minni hálfu þessa vikuna. Jæja ekki hægt að gera öllum til geðs.

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Kreppan góða

Ég elska tilhugsunina um kreppu.

Ein útgáfa ag kreppusúpu:

Súpupotturinn fylltur af vatni (fjórir lítrar eða svo)eða stóri potturinn á heimilinu. Og á eldavélina með greyið.
Meðan vatnið er að ná upp suðu, sting ég höfðinu inn í ísskáp og tíni út allt grænmeti sem ég á og tel henta í súpu, hreinsa og sker niður skelli svo í pottinn.

Laukur
Púrrulaukur
Paprika
Hvítkál
Gulrætur
Kartöflur
Tómatar

Meira fannst ekki í kæliskápnum á bænum.
Kíki í kryddskápinn - hum.........grænmetissteningur, salt, pipar, og svo eftir hvað mér líkar í hvert sinn.

Læt suðuna koma upp og svo mallar súpan á litlum hita svona í tvo tíma. Þá píska ég allt saman vandlega og komin er dýrindis súpa þykk og matarmikil. Þetta borðum við svo með gleði og ánægju með brauðinu sem ég bakaði meðan súpan sauð.

Njótum þess að borða og líka dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Kreppa

Áfram með smérið. Eða bara sleppa smérinu í það minnsta á brauð, það límir bara áleggið fast. Ef við erum ekki að tvíhenda brauðmetinu upp í loftið má sleppa því............ Spara og grennast - hum.... jæja er feitmeti hollt eða óhollt um þessar mundir?

Veit ekki en athuga málið.

Svo ef þarf að laga fjármálin, má byrja á að sleppa internetstengingum heima og nýta sér frítt samband vítt og breitt um bæinn.


Njótum dagsins

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, febrúar 18, 2008

Kreppuráð.

Ráð eru góð þægileg að gefa erfiðara að framfylgja.

Í væntanlegri kreppu, þarf meðal annars að spara rafmagnið. Og kyndinguna.
Rakst á þetta:

Sparnaðarráð

Bæta má orkunýtni án aukakostnaðar, hér eru tíu ráð sem kosta ekkert en geta dregið verulega úr orkurkostnaði heimila:

  1. Lækka innihita niður í 20°C
  2. Slökkva alveg á raftækjum, ekki skilja þau eftir í biðstöðu
  3. Hafa glugga lokaða nema við gagngera loftun
  4. Ganga eða hjóla styttri vegalengdir
  5. Fylla ávallt þvottavél og uppþvottavél
  6. Hafa lok á pottum og pönnum og þekja alla helluna
  7. Setja gluggatjöld fyrir glugga að næturlagi
  8. Vistakstur með mjúkum akstri og réttum loftþrýsting í dekkjum
  9. Ekki birgja ofna með húsgögnum eða gluggatjöldum
  10. Fara í sturtu frekar en bað

Ég er svo hrifin af svona einföldum flottum ráðum en hvað geri ég:

  1. Oftast er hitinn fremur lítill í kringum mig enda með bilaða eigin miðstöð mér er yfirleitt of heitt.
  2. Þarna er ég aldeilis sek, tek mig saman í andlitinu. Einhver snillingurinn sagði mér að best væri að vera með einn alsherjar slökkvara svo ekki þyrfti að hlaupa um allt húsið.
  3. Sek, ég er út í eitt með opna glugga og oft opið út, mér er alltaf heitt. Geng þó um hálfnakin.
  4. Sek, geng bara út í bíl.
  5. Happa og glappa aðferðin á mínum bæ, segi mér samt til hróss að á öðru heimilinu er lifandi uppþvottavél.
  6. Fer eftir þessu án þess að vita afhverju, trúlega uppeldistengt.
  7. Ég er með rúllugardínur til að halda ljósinu úti yfir sumartímann hefur ekkert að gera með hitatap.
  8. Úps bílar eru ekki mín deild, keyri þá bara.
  9. Alveg er ég saklaus af þessu.
  10. Ég fer oftast í sturtu, stundum í bað. En velti fyrir mér sparnaði þar? Nota ég minna vatn í hálftíma sturtu en ef ég læt renna í bað? Sá spyr sem ekki veit.

Njótum dagsins, höfum áhyggjur af kreppunni þegar hún kemur.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Kreppan

Yfirvofandi kreppa og kreppuráðin eru mér hugleikin, sparnaður og aðhaldssemi. Útsjónasemi og endurnýting. Endurvinnsla -- endurnýting. Nýtni og vinnusemi. Fara vel með.

Eftirfarandi er úr kaflanum um föt.

Fatnaður: Hér á landi er brýn þörf fyrir fatnað, sökum veðurfars einna helst og svo án efa siðsemi.
Fötin sem við eru hætt að nota á að gefa áfram ef þau eru nothæf. Þau sem eru ekki nothæf okkur og ekki öðrum á að nýta í annað ekki henda. Það ber að:
  1. Skoða vel hreina flíkina.
  2. Taka allar tölur af og setja í tölubox, tölubox/tölukrukku/töludós þarf ekki að kaupa við notum ílát sem búið er að tæma svo sem sultukrukku eða dósir undan skyri.
  3. Taka rennilás af hann er og setja í rennilásaboxið.
  4. Spretta flíkinni sundur.
  5. Strauja út sauma.
  6. Efnið tilbúið til notkunar þegar á þarf að halda.
  7. Sauma má nýja flík.
  8. Nota má efnið í bætur á aðra flík.
  9. Eftir efnisgerð má til að mynda búa til afþurrkunarklúta.
  10. Bekkjarýjur.
  11. Kaffipoka.
  12. Ef efnið er fullnýtt, það er búið að endurvinna það eins og hægt er þá er enn engin þörf á að henda.
  13. Klippa má efnisafganga niður í ræmur og hekla til dæmis mottur.
  14. Svo í lokin má tæta efnið niður og nota í bólstrun.

Nú allt ofangreint krefst þess að við höfum tíma í sýslið en engar áhyggjur þarf að hafa honum, enga atvinnu er að fá hvort eða er.

Nýtum og njótum þess að vera til.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, febrúar 15, 2008

Karfan

Óskaplega merkilegar tær! Margar á hvorum fæti! Smakkast ljómandi, takk amma. " Sagði Heiðrún Björg við ömmu sína og brosti blíðlega"
Ójá og sei sei, ég dossa, sletti í góm og slæ mér á lær. Gaman í Hólminum.


Afi heillar dömurnar eins og fyrri daginn, mikið öryggi í þessum faðmi. Enda flottur afi.



Vedderinn lét ekki sitt eftir liggja skreið í fang afagösla. Enda færðist hann niður á vinsældarlistanum þegar heimasætan kom í heiminn.

Foreldrarnir eru stoltir og stilltu sér upp til myndatöku.

Við fórum síðan öll saman á körfuboltaleik, pabbinn að spila og hinir í klappliðinu. Við unnum leikinn og svo hélt hver og einn til síns heima. Skemmtilegur dagur, enda heillar hólmurinn.


Með hækkandi sól og komandi kreppu höfum við systur ákveðið að safna upplýsingum, hagnýtum, sem koma sér vel í kreppu. Dóttirin vildi nú kalla bókina " Hagnýt ráð á erfiðum tímum" en það er svo ráðsett nafn.----------Við systurnar erum allt annað en ráðsettar.

Bókin verður kaflaskipt eins og gæðabækur eru. Og undirkaflar eftir hendinni.

Dæmi:

Að elda úr engu. (Kaflaheiti)
Súpur (Undirkafli)
  1. Naglasúpa
  2. Hversdagssúpa
  3. Kartöflusúpa
  4. Sunnudagssúpa
  5. Yndi húsmóðurinnar
  6. Uppáhald pabbans
  7. Norðlensk sæla

Og annað dæmi:

Fatnaður (Kaflaheiti)

Sokkar (undirkafli)

  1. Að stoppa í sokka
  2. Að bæta sokka
  3. Að skeyta saman nýtanlegum sokkaplöggum
  4. Að prjóna sokka
  5. Að sauma sokka
  6. Að endurnýta sokkaplöggin þegar þau eru ekki lengur nothæf sem sokkar.

Sokkabuxur(undirkafli)

Já kaflarnir verða margir og ýtarlegir, ekkert undanskilið. Sérstaklega verður fjallað um hvernig bæta má sængurver, lök og þessháttar án þess að það komi niður á gæðum og útliti.

Ég veit að okkur gengur vel enda hæfileikaríkar systur. En alltaf má á sig blómum bæta svo ef einhver lumar á hagnýtu kreppuráði, þá bara senda inn.

Guð hefur gefið okkur góðan dag, svo njótum hans.













Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, febrúar 10, 2008

Kærleiksheimilið

Við ábúendur kærleiksheimilisins ætlum að leggja land undir dekk og heimsækja "Þá tannlausu"
Yngstu meðlimir fjölskyldunnar ganga undir nöfnunum " Hin tannlausa" og " Hin tennta" af honum Gösla mínum. Ég brosi blíðlega og flissa í laumi.

Dáist óendanlega af æðruleysi hans og umburðarlyndi, ekki er á hvers manns færi að búa með mér og elska skilyrðislaust.

Flissa og hlæ, flissa og hlæ þegar hann dansar fyrir mig ástardans Flamingófuglsins.

Er samt orðin of gömul í hreiðurgerð.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, febrúar 09, 2008

Bleyjupoki/bleijupoki

Það vantaði snið en allt bjargast.





Eftirfarandi er grobb:

Grobb og grobb.
Mont og sjálfsánægja.


Titrandi af stolti og saumakonufíling.

Gott og gilt að vera ánægður með sjálfan sig.

Ó já þetta gátum við gömlu hjónin, bleyjupoki á herðatré eins og einu sinni var. Soffían okkar bað fallega og fékk.

Smá vangaveltur, hux,hux og þetta tókst.

Við erum svo hæfileikarík hér í Borgarnesinu.

Njótum þess að vera til.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Snjór

Og sjömínútur gengin í átta. Illa fært. Kaos. Límsnjór. Snjór. Snjór.

Festum okkur. Nýr snjór 22cm djúpur. Allir út að búa til engla.

Gaman gaman gaman. það sem sé snjóar. Hlusta á útvarp og heyri að illa sé fært, ófært.

Snjór er yndislegur, bjart yfir, hreint um stund, blæbrigði og litatónar einstakir. Stórfenglegt.

Lífið ljúft, kaffið gott, góður dagur og ég á leið í sturtu og út í daginn. Uppáklædd í sparifötunum bæði utaná og innaná.


Ekki veitir af blómum og hlýjum kveðjum.

Njótum dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, febrúar 01, 2008

Pollýanna

Það sagði mér kona sem ég tala oft við að hún læsi bloggið mitt - hvort sem ég skrifaði eða ekki.
Mér þykir vænt um þessa konu.

Getið þið bara hver hún er.

Það þarf einmuna snilling til að lesa það sem ekki er skrifað og skilja það. Vá hvað ég vildi vera þessum gáfum gædd.

Jæja en líf mitt er vinna og vinna og svo vinna. Vinnan göfgar manninn ekki satt.
Ég hef verið að velta fyrir mér hversvegna ég skrifa eða skrifa ekki.

Hef ekki hugmynd um það. En leiði að því líkum að andans ruslafatan sé endanlega tóm og dallurinn með andagiftinni sem inniheldur allt það sem er ekki rusl sé full.

En veröldin er full af gáfumannaspekúlöntum sem eru alltaf að segja hið gáfulega, hið vitra, útdeila kenningum og skoðunum, vangaveltum og lausnum á veraldarvandanum

Ég læt ofangreinda um lært málfar og gáfulegar skoðanir, bíð í rólegheitum eftir að rusladallurinn fyllist á ný.

Njótum dagsin, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com