Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

fimmtudagur, maí 31, 2007

Letin er dyggð.

Já letin er dyggð, vanmetin að vísu en hvað er yndislegra en gera ekki neitt annað en hugsa, sýsla, sauma út og hekla? Vita að húsverkin hverfa ekki, fyrirvinnan sést ekki, og kötturinn sem átti að koma í pössun lét sig frekar hverfa út í óvissuna en að koma hingað.
Kannski veit kattaróbermið hvað þýðir á mínum bæ að fara í sveit.

Ég hef litið í blöðin undanfarið, svona fer nú letin með mig, var jafnvel að hugsa um að splæsa í "Séð og heyrt" en lét það ekki eftir mér um sinn.

Einhverjar umræður eru um illa meðferð á verkamönnum uppi á hálendinu, misnotkun á börnum, líkamsárásir og sittlítið að hvurju flestu miður auk auglýsinga. Ég hef skoðanir á þessu öllu saman en læt þær liggja um sinn. Fuglinn þarf ekki að syngja allt sem hann kann.

Ég velti því fyrir mér hvað er til ráða? Hvað get ég gert?

Það er best ég geri eins og meirihlutinn, ekki neitt.

Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, maí 23, 2007

Nú er ég lens.

Já kom að því eiginlega bara skoðanalaus í dag eða svona næstum því.

Ný stjórn kominn á koppinn, ætli mikið breytist?

Ég er nú eins og margur veltandi því fyrir mér hvað við höfum að gera við alla þessa ráðherra og ráðuneyti er mannskapurinn ekki bara að ná sér í góð laun fyrir litla vinnu, allir aðstoðarmennirnir og nefndirnar sjá um vinnuna.

En einhver þarf að sýna sig og vera upp á punt í blöðum og af bæ. Þetta er nú leið til að geta keypt sér meira af fötum og fara oftar til að láta skinna upp á sig í hinum ýmsu fegrunarstofum og öðru þess háttar..


Ég held hinsvegar að hægt sé að verja peningunum betur.

En hvað hef ég um það að segja, kannski er ég bara pínu afbrýðisöm, ég hef ekki milljón á mánuði fyrir utan bitlinga.

Nóg um það.

Lífið heldur áfram og ég líka.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, maí 17, 2007

Umburðarlyndi

Umburðarlyndi er hugtak sem ég velti fyrir mér á stundum, kemst yfirleitt ekki að neinni niðurstöðu enda ekki alltaf lagt upp með niðurstöður að markmiði.

Skilningur minn á umburðarlyndi er einfaldur, felst í að geta fordómalaust virt og skilið sjónarmið og lífstíl annara, og vera mild gagnvart yfirsjónum annara, vera mild þeim sem mót mér braut eins og segir í góðu kvæði. Líka að vera mild mér.

Lífið sjálft þarfnast skilnings, jafnvel þolinmæði .

Allavega er umburðarlyndi lært og þarfnast æfingar á hverjum degi, sleppa takinu á eigin skoðunum og væntingum, leyfa öðrum að vera eins og þeir eru, vera sjálfur eins og maður er. Og vera glaður með.

Gleði er yndisleg, hún breytir sýninni á daginn og lífið. Gleðin smitar út frá sér, sá sem er glaður sækir í að deila henni með öðrum.

Njótum dagsins, hvers annars og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, maí 15, 2007

Bjarta hliðin á lífinu.

Fyrir ekki svo margt löngu var bóndi einn á ferðalagi hér í Borgarfjarðarsveitinni, honum fataðist eitthvað í akstrinum og lenti á hvolfi út í skurði. Ómeiddur skreið hann út úr bílnum, leit yfir vettvang og sagði" Nú væri lag að smyrja"

Þetta sjónarmið er heillandi í sjálfum sér. Ég vildi gjarnan hafa þennan eiginleika, er stöðugt að vinna að viðhorfum mínum. Og eins og fyrri daginn kemst þótt hægt fari.

Viðhorf, viðhorf, hvernig ég horfi á hlutina, atburðina, lífið sjálft hefur mikið að segja um líðan mína.
Og mér líður vel.
Skyldu þá viðhorfin vera í lagi? Ég á stundum erfitt með að skilja en ég þarf ekki að skilja allt.

Svo finnst mér gott að sjá og hlusta með hjartanu.

Ég gæti með góðri samvisku sagt ef ég yrði spurð "Hvernig líður þér í dag?"
Takk fyrir að spyrja, mér líður vel.


Ótrúlega heppin kona.

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, maí 12, 2007

Ungir menn.

Ungir menn heilla mig.

Óliver Bjarkason dugnaðarforkur, neitaði að fara að sofa í gærkveldi hann hafði svo mikið að segja. enda mikið að gera í kringum húsið hans, verið að skipta um lagnir undir húsinu og jarðveg allt í kring.

Svo þegar heim í Borgarnesið kom svaf ungur maður þar Ágúst Freysson, vaknaði í morgun knúsaði ömmu sína, kvartaði undan tannálfinum með svolitlu blísturshljóði enda framtannalaus í augnablikinu.

Skammaðist örlítið yfir skorti á ís í frystiskápnum, amman lofaði að bæta úr því bæði fljótt og vel.
Svo sýndi hann mér fullan vasa af gulli, ýmsu strákagulli sem er ómissandi hverjum meðal gutta.

Hann átti slatta af peningum, ég hvatti hann til að fara og kaupa sér nammi enda væri nammidagur.

Pilturinn þvertók fyrir það, peninginn átti að geyma ef Afagösla vantaði aur. Huglusemi af þessum toga er ekki metin til fjár. Og svo var hann farinn, ætlaði að fara og horfa á Afagösla steypa, svo ein sit ég og fer brátt að sauma.


Vorið er yndislegt og gott að vera til.

Njótið.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, maí 11, 2007

Bleikt er það heillin.

Já ég brá mér í búð og keypti bleikt útsaumsgarn, sem þýðir bara eitt - stúlkubarn á leiðinni ef nútímagræjurnar eru réttar og virka sem skyldi. Já frábært að fá ömmustelpu.

Undarlegt að ég skuli bara sjá ungbarnaföt, hugsa um ungbarnaföt ég er ekki barnshafandi kona ég er ömmuverðandi kona.


Ég var nú hundfúl yfir úrslitum Júróvisjón í gærkveldi. Eiríkur er minn maður hvað sem á dynur. Smekklaust lið þarna út í hinum stóra heimi. Ég held mig við minn heim og uni þar. Með gleðina í annari hendi og kærleik í hinni. Læt það duga.

Ég verð nú að segja eins og mér finnst um kosningaáróðurinn þessa síðustu daga, peningunum sem sóað er í þá vitleysuna væri betur varið annarsstaðar .

Og það sem verra er ekkert hægt að kjósa.


Ég ætla út í daginn, þetta er frábær dagur.

Njótum hans.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, maí 10, 2007

Ein sit ég og sauma.

Ójá farin að sauma út, gaman að því enda snillingur til handa og fóta!

Jæja snillingur í það minnsta.

Hef tekið ákvörðun um að taka ekki ákvörðun.

Sé að það fer mér vel að velkjast um í blíðu og logni, með saumadótið í poka, humm poka er nú ekki rétt að fá sér saumakassa, getur svo verið við hliðina á öllum hinum dótakössunum mínum.

Hann Freysi minn á afmæli í dag. Til hamingju með daginn Freysi minn, mér þykir óskaplega vænt um þig, svakalega eldist þú hratt.

Einhvernveginn líður lífið áfram, hægar en fyrir fjörutíu og fimmárum.

Á þessu degi 1940 hernámu bretar Ísland. Fyrir sextíu og sjö árum. 67.

Eftirlaunaaldurinn margumtalaði, þegar öryrkjar hætta að vera öryrkjar, fatlaðir hætta að vera fatlaðir, þroskaheftir hættir að vera þroskaheftir, já við verðum flest bara gamlir vanræktir fátæklingar, ekki þingmenn og ráðherrar þeir hafa góð eftirlaun og geta borgað aukalega fyrir mannsæmandi þjónustu. Það er aldeilis ekki sama hver er.


Já svoleiðis er þetta bara.

Nú viljum við annarsskonar her. Já svo herskyldu, þegnskyldu og svo framvegis. Einhver verður að hafa vit fyrir okkur og aga okkur til. Slæ mér nú á lær og dossa.

Hætti að röfla er greinilega að missa mig í einhverjum skoðunum.

Njótum. Brosum. Hlæjum. Gleðjumst.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, maí 09, 2007

Dótakassinn

Flissa og hlæ, nýtt dót í dótakassanum mínum.

Vá.

Dótla mín kom færandi hendi frá Taívan, vænst þótti mér um að fá hana heim, eigingirnin er því lík að vart er hægt að hafa orð á því. Hún slettir kínverskunni lítið svo ég skil allt sem hún segir.

Ég fékk sko marga pakka og get leikið mér um sinn sátt og glöð.

Hún færði mér og Gösla líka hjálpartæki fyrir Skrabblið, snilldin ein. Snúningshjól (okkur gamla settinu gengur illa að lesa á hvolfi) og talningstré, hún litla telpukornið þarf nú að mæta á staðinn og kenna okkur á græjurnar, gleðin við að hafa hana í skrabblinu er meir en helmingur af leiknum. Sú flinkasta og fljótasta á landinu að fletta upp í orðabók, alltaf virðast þrjár hendur á lofti þegar hún er að sannreyna orðsnilld Gösla míns.

Já ég flissa og hlæ, hún kom með dót í ilmkjarnaolíudótakassann minn.

Lítil börn að leika sér, umda.

Ég held undirniðri bíði hún eftir að móðurmyndin verði fullorðin, en já, ........ við sjáum til.

Ég kann bara vel við mig í húsmóðurhlutverkinu, spássera um og velti fyrir mér hvað ég á að gera næst, tek ákvörðun um að gera ekkert nema leika mér um stund, hvenær hefur svosem ryk, drulla, drasl og skítur horfið? Bara spyr eins og fávís kona sem ég náttúrulega er. Og það er gott að vera fávís kona.

Njótum.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, maí 06, 2007

.......þá væri ég dauð.

Ef ég væri með rykofnæmi þá væri ég dauð, svo einfalt er það. Ég dustaði semsé rykið af húsmóðurgeninu mínu, kafnaði næstum við atganginn en það er seigt í mér.

Þetta eina gen er tiltölulega virkt ennþá þrátt fyrir afar litla notkun í fimmtíuogfimmár.
Hef sem sé klöngrast upp í allflesta efstuskápa, gert eignartalningu, þurrkað af og hent því sem ekki hefur verið notað í mörg ár og er engum öðrum til gagns.

Samt er ótrúlega mikið sem ég enn held í, einskisverðir hlutir engum til ánægju nema mér eða varla mér, ef ég hef hlutina falda upp í skáp svo árum skiptir eru þeir mér þá til ánægju?

Mér þykja geymslubox smart og notagildið ótrúlegt. Ég á mörg svoleiðis full af hlutum sem ég er að geyma bara til að geyma.

Ég rekst stundum á skrýtna hluti svo sem minningarbók frá því ég var í barnaskóla, fletti, hugsa um hvað hafi orðið um öll börnin, trúlega eru flestir orðnir fullorðnir, ömmur og afar vonandi í góðri líðan.

Ég held áfram.

Njótum.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, maí 05, 2007

Hætt

Hætt að hugsa, hugsanir leiða mig bara í ógöngur.

En ég hugsa samt stundum ennþá. Í gær hugsaði ég um hvað ég er heppin kona.
Um þrjúleitið í gær fór ég inná matsölustað til að snarla mig örlítið enda alveg að horfalla. Á staðnum er örlítið barborð enda selt vín með mat og án mats. Þar var stúlka rúmlega tvítug á að giska, sat og drakk sitt öl ein. Ég var glöð að vera ekki í hennar sporum.
Ég settist og fékk þjónustu, og beið. Þá kom inn gamall maður af útlitinu að dæma um áttrætt, afar ölvaður. Og ég hugsaði með mér, vonandi verð ég ekki svona.

Svo bara lítil athöfn, eins og að næra mig, fær mig til að hugsa.

En ég er ánægð svona í aðra röndina með að hafa enn hæfileika til að velta fyrir mér misgáfulegum hlutum.

Ég ætla að halda áfram í deginum, björt og brosandi.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, maí 01, 2007

Verkalýðsdagur

Já og ég fór út í búð, enda er búðarfólk ekki verkalýður.

Ég hugsa oft um alla þessa frídaga, annan í einhverju og svo framvegis. Gott er að eiga frí til að stunda allar tóm stundirnar, það er eiginlega full vinna að eiga tóma stund (hvenær er stund tóm annars?)

Sumarfrí vill oft einkennast af erfiðum ferðalögum misskemmtilegum og oft dýrum, svo sem að nú kostar vika í sumarbústað átján þúsund krónur sem er nokkuð kostnaðarsamt fyrir hinn venjulega Jón sem vinnur fyrir 150 þúsundum á mánuði. Mér var kennt fyrir margt löngu síðan að hugsa verð hluta út frá tímakaupinu mínu, hversu lengi ég væri að vinna fyrir hverjum hlut, hver er nú verkamannalaun á klukkustund að frádregnum sköttum og skyldum.

Viðurkenni að ég hef ekki gluggað í texta verkalýðsins nýverið enda ekki verkalýður háskólagengin konan!

Hvenær er frídagur háskólagenginna manna?
Hvenær er frídagur iðnaðarmanna?
Hvenær er frídagur allra fræðinganna?
Hvenær er frídagur hinna stéttlausu (aldraðir, fatlaðir .......................)

Já sá spyr sem ekki veit.

Svo er það fagið, réttindi fagmanna. Lendi í vangaveltum og umræðum um það alltaf af og til. Ég er að læra heilsunudd, útskrifast að vori komanda ef Guð lofar og ég framkvæmi.

En heilsunudd er ekki lögverndað starf. Hver og einn getur stundað nudd og opnað nuddstofu án þess að sýna fram á nokkra löggilta pappíra.
Ég fékk löggildingu þegar ég útskrifaðist sem Þroskaþjálfi.
Gösli er löggiltur ´Múrarameistari og með pappír upp á það.

Og svo framvegis og svoframvegis. Í iðngreinum og víðar eru handlagið fólk með mikla reynslu, hæfileikaríkt og klárt en ekki með nein réttindi. Og vinnan oft með ágætum, Margir starfa sjálfstætt að hinu og þessu réttindalausir.

Ég hugsa og hugsa, húxa og húxa, huuuummmm.

"Ég fór til læknis um daginn og hann saumaði í mig nokkur spor, allt gekk vel, ekkert upp á hann að klaga, ég komst að því um síðir að hann var ekki fagmaður(ekki með réttindi) en hafði æft sig mikið og lesið sér til. Huuumm."

Hvað með tannlækna: " Ég er nú reyndar ekki með nein próf engin fagréttindi en ég er búinn að æfa mig lengi"

Ég held áfram að hugsa um sinn, það fer mér svo vel.

Njótum hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com