Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

laugardagur, júní 24, 2006

Listin að vera amma.

Það er kúnst að vera amma. Og ekki orð um það meir.

Nei fullt af orðum um það. Þrjár ungar ljóshærðar fallegar stúlkur komu með mér í Borgarnes í gær til að eyða helginni með afa og ömmu. Fjagra - sex - átta ára. Eftir að hafa ekið eins og vegur liggur fráReykjavík til Borgarness (Heppnar að halda lífi vegna hraðaksturs þeirra sem telja 90 km hraða hægagang og slór) Stoppuðum við í Bónusverslun einni mikilli og gulri. Út úr bílnum skunduðu fjórar kvenkynsverur, amman síðust teljandi upphátt og í hljóði - 1,2,3 1,2,3.
Þar sem sú elsta Lísa Lind hafði valið kvöldmatinn deginum áður fékk sú fjögurra ára Harpa Dögg að velja í matinn í gærkveldi. Hið frjálsa val var hrísgrjónagrautur í bæði skiptin. hummmmm ekki þungar á fóðrum.
Hjá ömmu er valfrelsi mikið og tók sinn tíma að velja- morgunmat - kex - gos - og ekki vildu þær allar eins. Ávextir og ís hrundu í körfuna og svo mjólk fyrir afagösla. Andrea Líf fjögurra ára vildi tryggja að afinn fengi nú eitthvað ef hann leggði niður vinnu hluta af sólarhring.

Í versluninni komst ég að niðurstöðu:
Kælir á allt svæðið, litlar hnátur þola illa við í kælikulda, myndi spara stórfé.

Svona af því að afigösli var að vinna ákváður telpurnar að sofa hjá ömmu í ömmurúmi sem er bæði stórt og breitt.

Fljótlega upp úr miðnætti tók ég sæng mína og gekk. Ég svaf ágætlega í stofunni. Þegar ég kíkti inn til prinsessanna í morgun sváfu þær eins og englar.

Sofandi börn eru einstaklega falleg. Ussssssssss, usssssssssssss þær sofa enn. Ég hugsa hljóðlega til að engin þeirra vakni strax.


Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, júní 23, 2006

Niðurstaða.

Ég hefi komist að því að ég er kvenkyns, ég fór í nælonsokka í morgun.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, júní 22, 2006

Sumar

Það er enn sumar.

Njórið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, júní 21, 2006

Sumarblíða

Það er komið sumar.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, júní 20, 2006

Ég vísa............

í athugasemdina við "listin að elska" Ísfirðingurinn fer þar ákostum sem oft fyrr. Öllum er frjálst að lesa athugasemdina nema ísfirðingsfrúnni. Mig langar nú helst að taka afrakstur ritfimi ísfirðingsins og birta hér en þar sem hans ektakvinna hefur ekki leyfi til að lesa þá læt ég það vera. Því ef hún væri að skruna á netinu gæti hún rekist á síðuna mína og lesið en ísfirðingar eru stálheiðarlegt fólk þannig að ísfirðingsfrúin færi nú aldrei að líta ákommentin hjá öðrum sérstaklega ef vel og vendilega er tekið fram að lesningin sé ekki henni ætluð.

Svo af öfundsýki:

Ég öfunda skipulagt fólk. Svona sem dæmi um ferlið; fólk sem ákveður að þrífa bílinn sinn klukkan fjögur, fer fyrst og skiptir um föt tekur allt saman sem við á að éta og byrjar verkið og hættir ekki fyrr en allur bíllinn er snurfusaður utan og innan og allt um kring.

Ég hinsvegar tek ákvörðun að þrífa bílinn hér og nú, skiptir þá engu um stað og stund, búininginn eða græurnar, skutlast á næsta stað þar sem fyrir finnst rennandi vatn og hefst handa. Bæng........ allt í einu uppgötva ég að spariskórnir (Vandaðir pinnahælaskór) eru orðnir eins og blöðrur, sparikjóllinn (Silki og taft) klístrast rennblautur um minn íðilfagra skrokk.
Ég nefni ekki hér hvernig hárgreiðslan og stríðsmalning frúarinnar lítur út eftir vatnsgusur í allar áttir.

Hér á herragarðinum okkar Gösla er sama upp á teningnum. Ég ákvað að mála, ekki veggi heldur með olíu á striga og vatnslitum á pappír. Afleiðingarnar eru dásemdin ein. Eldhúsið, borðstofan, stofan, betri stofan, sjónvarpsherbergið og aukaherbergin eru undirlögð auk þess sem ég hef lagt undir mig bílskúrinn, svæðið undir bílskúrnum og hluta af þvottahúsinu. Framangreint væri nú ekki svo slæmt ef ég ætti orðið eitthvað til að vera í, því alltaf fer á einhvernhátt framhjá mér að fara í slopp og setja upp hanska. Gösli minn stynur stundum en sættir sig við migeins og ég er, þakklátur fyrir gönguleiðina sem hann hefur: forstofa - eldhús - baðherbergi - svefnherbergi. Nettur og lipur maður múrarinn sá.


Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, júní 19, 2006

Listin að elska

Listin að elska

Þessi listi er hannaður með það í huga að þú lítir á hann af og til og sækir þér ný ráð til að krydda upp á og viðhalda ástinni í sambandinu. Gefðu sambandinu þínu jákvæða strauma!
1. Faðmaðu maka þinn - takk fyrir fótanuddið ástin mín !
2. Skrifaðu ástarbréf
3. Hringdu, bara til að segja "hæ"
4. Gefðu fótanudd
5. Segðu brandara
6. Dekraðu, með strokum um allann líkamann
7. Farið í göngutúr
8. Viðurkenndu mistök þín
9. Segðu: "ég elska þig"
10. Láttu undan duttlungum
11. Hlustaðu
12. Vertu trúverðug/ur
13. Í stað þess að kvarta, láttu vita hvað þú hefðir frekar viljað
14. Horfðu í augu maka þíns þegar þið talið saman
15. Sendu blóm
16. Hrósaðu
17. Hjálpaðu
18. Biddu maka þinn um að hjálpa þér
19. Hringdu þegar þú verður sein/n
20. Bjóddu maka þínum út að borða
21. Skrifaðu ljóð um hversu dásamlegur maki þinn er
22. Klipptu út skopmynd sem þú veist að maka þínum á eftir að líka
23. Spurðu maka þinn hvað hann vill í kynlífinu
24. Farið saman að versla
25. Farið í bíltúr síðdegis
26. Hljúfið ykkur saman
27. Takið utan um maka ykkar fyrir framan annað folk
28. Bjóðið út á óvænt stefnumót
29. Gerið eitthvað sem maka þínum finnst gaman að gera
30. Planaðu kvöldverð heima við kertaljós
31. Skoðið gamlar myndir saman
32. Gefðu maka þínum morgunmat í rúmið
33. Haldist í hendur
34. Segið hvoru öðru frá kynlífsdraumum ykkar
35. Gerið vinnuplan saman
36. Nuddaðu bakið 37. Farið í sturtu saman
38. Vertu með mynd af honum/henni í veskinu
39. Farið burt saman yfir helgi
40. Gefðu nóg af kossum
41. Brostu þegar þú horfir á hann/hana
42. Farið í hjólatúr saman
43. Komdu maka þínum á óvænt með klæðnaði
44. Planið lautarferð
45. Lesið saman um það hvernig sambandið getur orðið enn betra
46. Enturtakið það sem maki ykkar segir áður en þið svarið
47. Segðu "góðann daginn" á undan
48. Athugið hvort makinn á nokkrar mínutur lausar áður en þið truflið
49. Sendu maka þínum kort á netinu
50. Komdu á óvart með gjöf á bara "venjulegum degi"
51. Eldaðu uppáhaldsréttinn hans/hennar
52. Prófið nýtt veitingahús
53. Spurðu maka þinn hvernig honum líður
54. Láttu maka þinn vita þegar þú ert stolt/ur af honum
55. Fáðu þeirra álit
56. Settu á rómantíska tónlist
57. Tileinkaðu honum/henni eitthvert lag
58. Sendu búnt af blöðrum heim eða í vinnuna
59. Horfið á sólarlagið saman
60. Spilið
61. Látið þá vita að það er fríkvöld frá börnumog buru
62. Farið í bíó á mynd sem makinn velur
63. Biðjið maka ykkar um faðmlag
64. Notaðu nýjan ilm 65. Bjóðið til Bali
66. Ræðið framtíðaráform og drauma
67. Athugið hvort þið getið eitthvað hjálpað ef makinn er eitthvað dapur
68. Ræðið drauma hennar/hans
69. Hittu hann/hana í hádeginu
70. Stækkaðu mynd af stað sem er ykkur kær
71. Gefðu henni/honum gjafabréf í uppáhaldsbúðinni
72. Segðu maka þínum hvað það er í fari hans sem þú elskar
73. Gefðu henni/honum nýjan ilm
74. Farðu með maka þinn á tilkomumikinn stað
75. Sendu maka þínum körfu með einhverju góðgæti
76. Sendu SMS
77. Láttu maka þinn vita ef þú hefur verið að hugsa til hans/hennar yfir daginn
78. Gefðu honum/henni leikfang
79. Hrósaðu maka þínum við vini ykkar
80. Færðu maka þínu gómsætan og frískandi drykk
81. Segðu maka þínum að hann líti vel út og sé aðlaðandi
82. Sendu henni/honum póstkort
83. Bjóddu honum/henni á leynilegan stefnumótastað
84. Gefðu maka þínum höfuð og axlarnudd
85. Farið í danstíma saman
86. Skoðið myndir af ykkur þegar þið voruð að kynnast
87. Planið frí saman
88. Hlustið með opnum hug á þá þegar þeir eru ekki sammála ykkur
89. Gefðu maka þínum skartgrip
90. Horfið á uppáhaldsþáttinn hans/hennar með þeim
91. Skrifaðu bréf til hans/hennar
92. Hlustið á tónlist saman , eitthvað gamalt og gott
93. Hvíslaðu einhverju sætu að honum/henni
94. Segðu maka þínum frá því þegar hann gerir hlut sem þú kannt að meta
95. Gefðu maka þínum handarnudd
96. Leggðu hendina á lærið á henni/hounum í bílnum
97. Bjóddu maka þínum á konsert
98. Láttu hann/hana vita að þér er annt um ...
99. Gefðu maka þínum ástar- augnarráð á almannafæri
100. Leggðu teppi á stofugólfið, kveiktu á kertum og bjóddu maka þínum í heimatilbúna lautarferð!

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Á góðum degi.........

er gott að vera til. Á slæmum degi er líka gott að vera til, því ef við hefðum ekki bæði slæma og góða daga þekktum við ekki muninn. Hvernig dagurinn er er snýst að mestu um hugarfar okkar, þessa einföldu ákvörðun" Í dag er góður dagur"

Nítjándi júní er að mér skilst kvennafrídagur og ég á leið til vinnu - í lagi en ég verð að húxa:

Ef í dag er kvenna frídagur og ég á ekki frí er ég þá ekki kona?

Ef ég er ekki kona er ég þá karlmaður?

Ég hristi nú mitt fagra höfuð. Og hringlar í. Það er svo margt sem mér er fyrirmunað að skilja.

Í dag vonast ég eftir að hitta Ingusyss, ef ekki í dag þá seinna í vikunni, ég kann vel að meta samvistirnar við hana. Hún er einmuna skýr og skemmtileg systir.

Ef allt gengur eftir ætla ég í kvennamessu við þvottalaugarnar í kvöld Ekki það að ég telji þörf á kvenna...............degi......messu.......bókmenntum........
myndum.......ljóðum..........húsum og svo framvegis ekkert frekar en karla.......degi..........messu...............
.bókmenntum............myndum.......ljóðum..........húsum heldur langar mig að fara,
og læt eftir mér ef ég hef aðstæður til

Svo langar mig í kött, af og til í hund, íslenskar hænur í garðinn ásamt hana, litskrúðugann með stóran kamb.

Geitur væru til fyrirmyndar hér á svæðinu, en fílar ekki. Dóttirin segir að ég myndi aldrei nenna að moka undan þeim!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Hún veit greinilega ekki að ég er með próf á skóflu og einnig maðurinn sem elskar mig eins og ég er skilyrðislaust.


Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, júní 17, 2006

Táneglur

Ísfirðingurinn bráðsnjalli trúði okkur fyrir því á síðunni sinni að hann nakkalakkaði á sér táneglurnar undir stýri. Þykir mér það einmuna snilld. Og ekkert verra en að keyra fullur/lyfjaður mála og raka sig ásamt öllu hinu sem okkur detttur til hugar að framkvæma við akstur. Fjölhæfur maður með eindæmum.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, júní 16, 2006

Haglél

og hríð........

Ekki eru mörg ár síðan að ég lenti í hagléli og hríð sextánda júní hér í Borgarbyggð ég vona einlægt að sleppa í dag og til þess að tryggja mig gegn sumarhagléli ætla ég að halda í annann landshluta.

Ég ætla á Brandi suður.

Ég ætla á Leysinu suður.

Sko ynja stakk upp á Brandi og Hafdís stakk upp á að bíllinn héti ekki neitt, sem sé nafnlausi bíllinn. Dálítið langt að segja "Ég er að fara á nafnleysinu suður" Tek fyrri hluta samsetta orðsins frá = leysinu eða laus samanber nafnlaus.

En Brandlaus!!! Svo gæti ég ímyndað mér að "ara" hefði verið tekið úr samsetta orðinu, enda segja bílar sjaldnast brandara, en lélegt þykir mér að vera á húmorslausum bíl. Gleði gefur jú lífinu gildi.

Hummmmmmm.
Dosssssssssss!
Ég sletti nú góm.

Dreg fram gatslitinn feldinn og húxa málið betur.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, júní 15, 2006

Framtíðin

grefur fortíðar mein............ stendur skrifað einhverstaðar og er ég einlægt á sömu skoðun.

Ég og Hafdís nafna mín og vinkona eyddum saman deginum í gær í vatnslit - og akrýlmálun tedrykkju og slúður. Tókum skarplega á fyrstu þremur atriðunum en af og til uppgötvuðum við að ekki var nóg spjallað en stundirnar voru góðar, stefnt er á endurtekningu við fyrsta tækifæri.

Nú ég fékk frá útlandinu í gær kjarnaolíu eina væna sem ég ætla að reyna á mér og Hafdísi, þessi olía í bland við fleiri góðar eru sagðar vinna á örum bæði nýjum og gömlum. Myndir verða teknar í upphafi og síðan á mánaðar fresti. Bera blönduna á lámark þrisvar á dag í allt að þrjá mánuði eftir aldri öra. Og svo verður gaman að sjá hvernig þetta virkar.

Nú ef einhver vill taka þátt með okkur er bara að hafa samband og ég brugga hina göróttu olíu og kem á staðinn. Ég hef afskaplega gaman af öllu því sem nýtt er fyrir mér, eftilvill ekki nýtt undir sólinni en nýtt mér.Ég fjárfesti í nýútkomnum cd diski með stórsöngkonum á borð við Ellen Kristjáns, Andreu Gylfa og Ragnheiði Gröndal ásamt Sigríði Eyþórs og Hildi Völu. Heilluð upp úrskónum ogannað kemst ekki að, jafnvel Magnús Þór hefur verið settur til hliðar um stund sem hefur þó sungið fyrir mig eina frá því diskurinn hann kom út.

Iss og iss ég þarf að fjárfesta í bremsudiskum og bremsuklossum í bílinn minn sem hefur ekki fengið nafn.

Ég hef átt Rósmund, Kormák og Hinrik en þessi hefur ekki nafn sem er miður en við höfum ekki tengst á sama máta og hinir.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, júní 13, 2006

Upprætist

óskin mín......................

Byrjun á kvæði sem ég lærði fyrir margt löngu og man ekki nema brot úr. Minnið er hægt og sígandi að yfirgefa mig. Ójá, nú er illt í efni. Ætli það endi ekki með að heilinn yfirgefi svæðið eins og í Simsons forðum. Ekki veldur þetta minnisleysi mér þungum áhyggjum enda ekki hægt að hafa yfirþyrmandi áhyggjur af því sem ekki er fyrir hendi.

Úr eigin minnisleysi yfir í umönnun aldraðra:

Fór sem oftar í heimsókn til mömmu sem er raunverulegur minnissjúklingur, býr á þar til gerðu heimili fyrir aldraða, og henni sinnt eins vel og mannahald leyfir. Hún vill vera vel til höfð frá degi til dags eins og þegar hún var og hét. Reynum við systkynin að sjá til að hana skorti ekkert.
Ég verð enn örlítið slegin þegar hún lítur út eins og förukona,

En ég veit ekki alltaf afhverju nema ef vera skyldi skortur á ummönnunaraðiljum. Hluti af skýringunni en líka týnast fötin hennar, svo sem brjóstahöld og undirbuxur, hún á allt í einu ekki nema inniskó til að vera í, ekki það að hún sé mikið úti við (kemst ekkert sjálf) en þörf er á að eiga til skiptanna svona þegar og ef hún bregður sér af bæ. Æji best að hætta þessu nöldri, vinnst ekkert með því. Fór því í innkaupaleiðangur í gær og fer aftur í dag svo háöldruð móðir mín geti litið þokkalega út. Það virðist ekki, dæmt út frá mömmu, vænlegurkostur að geta ekki sinnt um sig sjálfur. Ég fagna allri umræðu um hag aldraðra, en verkin verða að tala. Lítið vinnst með skrifum og skýrslum og þó er sagt að orð séu til alls fyrst "Hvað heitir vatnið? spyr hindin þyrst"

Ég vona svo sannarlega að óskin mín rætist sem fyrst.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, júní 11, 2006

Helgi minn

Já, hann Helgi minn útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavíkí gær, ekki nóg að hann sé tengdamömmuvænn heldur klár líka. Hann er sem sé orðinn rafmagnstæknifræðingur ekkert smá lang orð það. Veisluborðið svignaði af hnallþórum og stríðstertum ásamt margvíslegu góðgæti að hætti þeirra hjónaleysa. Ekki fór ég léttari þaðan, enda góðar veislur aldeilis ekki gjörðar til að fara svangur af vettvangi.
Dóttirin snjalla var með ritskoðunarsvipinn sem þýðir á mannamáli að ekki er við hæfi að láta vaða á súðum um hvað sem er. Viðkvæmar sálir innanum annars fyrirtaksfólk. Ég ætti nú eftilvill að orða þetta öðruvísi en ég geri ráð fyrir því aðalþjóð sé kunnugt um að fyrirtaksfólk geti verið viðkvæmar sálir en ekki eingöngu forhertar sálir. Nóg um sálir.

Hvað er sál?
Hvað eru sálir?

Það borgar sig ekki fyrir mig að fara að húxa, feldurinn er orðinn heldur slitinn.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, júní 10, 2006

Heilsan.


Heilsufarskvæði

Nú líður mér illa, lasin er ég
margs konar kvilla-merki ber ég.
Um allan skrokkinn frá skalla að il,
mér finnst ég allsstaðar finna til.
Þessi fjári birtist í ýmsum myndum,
fjölbreytnin er með ólíkindum.
Í vindverkjum sterkum -vondu kvefi,
ræmu í kverkum - rennsli úr nefi.
Svo er þrálátur hósti,
og þyngsli fyrir brjósti.
En beinverkir þjaka baki og fótum,
og það brakar í öllum liðamótum.
Það grasserar sem sé gigtarfjandi,
sem almennt er talinn ólæknandi.
Þá er sljóleiki fyrir augum
en slappleiki á taugum
og svo þessi eilífa syfja,e
ða sárindi innan rifja
og óþægindi í einhverri mynd,
ofan, nei líklega neðan við þind.
Yfir höfðinu er þessi þráláti svimi
en þreytan gagntekur alla limi.
Og loks fylgir þessu lítill máttur
óregIuIegur andardráttur
bólginn magi og blásvört tunga
bronchitis í hægra lunga.
Svo safnast á líkamann skvapkennd fita
þótt ég skeri við nögl hvern matarbita.
Og í sjö vikur hefi ég - segi og rita
sofnað með köldu og vaknað með hita
samt hefði ég aldrei upphátt kvartað
ef lasleikinn væri ekki lagstur á hjartað.
Þar hef ég nú orðið stöðuga stingi,
sem stafa af brjáluðum blóðþrýstingi,
og lon og don hjá læknum er ég,
með litla von frá læknum fer ég.
Þeir hella yfir mig heilræðabulli
og ætlast til þess,
að í desílítrum ég drekki,
svaka dýr meðul, en samlagið borgar ekki.
Já, lítið er gagnið að geislum og bökstrum og sprautum
við svona fjölbreytni
vanlíðan og þrautum.
Það ber helst við, að mér batni á köflum
af brúnum skömmtum og magnýl töflum
og þó -----Já, batni mér snöggvast í baki og fótum
þá versnar mér um leið í liðamótum.
Og verði eitthvað hlé á vonda kvefinu.
þá vex að því skapi rennsli úr nefinu,
og réni um stund hinn harði, þurri hósti,
þá hundraðfaldast þyngslin fyrir brjósti,
ef augnablik tók fyrir iðraverk slæman,
þá óx sem því svaraði kverkaræman.
Og líði mér snöggvast eilítið betur í augum,
þá vex um helming vanlíðan á taugum.
Og dvíni augnablik aðkenning hjartastingsins,
þá magnast óðar brjálæði blóðþrýstingsins,
Og þess vegna er ég á eilífum hlaupum,til sérfróðra lækna og í lyfjakaupum.
Já,útlitið er ekki gott
ég þoli hvorki þurrt né vott,
það er að segja fæði,
og friðlaus af fjörefnaskorti,
Til fróunar mér ég orti,
langt og kvalafullt kvæði.


Höfundur:Böðvar Guðlaugsson

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, júní 09, 2006

Amstur.

Í amstri dagsins gerist lífið eins og það er, vakna - næra sig - vinna og svo framvegis. Ég velti því á stundum fyrir mér hvort það sé ekki sæla lífsins. Fábrotin einföld og vonandi laus við örfátækt.

Ég brá undir mig betri fætinum og skrapp að Svignaskarði, hafði það af að keyra langt fram hjá afleggjaranum annars hugar eða langt út á þekju í það minnsta ekkii með hugann við aksturinn og fékk þú auka ferð um uppsveitir Borgarfjarðar. En eftir að hafa snúið við, komið mér á áfangastað átti ég indæla stund með henni nöfnu minni, himneskur staður. Aðspurð sagðist hún vera hætt að gefa heimilisþröstunum epli - heldur orðnir þungir til flugs að hennar mati, Fleiri greinilega í megrun en helmingur kvenna í heimsbyggðinni.

Njótum dagsins lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, júní 08, 2006

TalnaspekiTalnaspeki frá: www. zedrus.is

Var að skruna á netinu og fann þessa miklu speki.
Persónutala; 8
Um hana gegnir sama mál og töluna 7, að hún stuðlar ekki að háttvísi, en hún geislar frá sér ákveðni, sem í ástamálum og vináttu verður oft til þess að vinna bug á slæmum áhrifum við fyrstu kynni og að lokum til þess að vinna ást þess, sem þú þráir. “Huglaust hjarta vinnur aldrei hylli fagurrar konu” ættu að vera einkunnarorð þeirra, sem eru undir áhrifum tölunnar 8, því að þeir verða oft ásfangir af þeim, sem ofar þeim standa í mannvirðingastiganum, og ganga í hjónaband gegn ráðum allra vina sinna, og njóta mikillar hamingju með maka sínum, þrátt fyrir það, að allar líkur virtust benda til hins gagnstæða. En við fólk, sem þeim er ekkert sérstakelga hugljúft, eru þeir verjulega stuttir í spuna og ókurteisir.

Köllunartala; 8
Þessi tala leggur lið sitt öllum framkvæmdastörfum. Áhrif hennar styrkja þá, sem stjórna verslunarfyrirtækjum, iðnaðarreksti eða fjármálum, og hún er sérstaklega hliðholl þeim, sem setja sér það markmið að vinna sér stöðu, auðæfi og völd, þótt við ofurefli sé að etja. Hún veitir stefnufestu og hagsýni. En þótt hún lofi ríkulegum launum að lokum, þá er hún ekki tala skjótra og auðunninna sigra. Talan 8 táknar erfitt starf og mörg vonbriði, en sigurvonir eftir margra ára harða baráttu. Þeir, sem láta fljótt bugast, meiga ekki vænta mikils af henni, því að hún gæti orðið til þess eins, að auka áhyggjur þeirra og mistök, þegar aðrir, sem gæddir eru meiri viljaþreki, halda leið sína, þrátt fyrir öll vonbrigði og alls konar öfugsteymi.

Örlagatala; 9
Þessi tala er kjörin fyrir þann sem er viðurkenndur foringi félaga sinna. Sveiflur tölunnar 9 eru einkar kraftmiklar, og þeir, sem eru undir áhrifum hennar, eru gæddir þrotlausum dugnaði og hugkvæmni. Þeim líður best, þegar þeir eru að gera stórfelldar áætlanir og taka ákvarðanir, sem valda miklu um velferð margra manna. Þetta er ekki tala þeirra, sem “fara hjá sér” í fjölmenni eða kjósa heldur frið og kyrrlátt heimilislíf en hinn sífellda eril og æsingu þjóðmálanna. Þess háttar mönnum veldur talan 9 einungis vanlíðanar.

Andlegtala; 2
Þetta er tala hins umburðalynda manns. Kjörorð hans er “Lifðu og lofaðu öðrum að lifa”, og það má gera ráð fyrir, að hann hugsi um sjálfan sig, en treysti öðrum, sem traust verðskulda. Hann er mjög hjálpfús að eðlisfari og samvinnuþýður, en laus við drottnunargirni. Þó er einn galli á gjöf Njarðar. Honum hættir til að láta sér sjást yfir mikla galla, og hann á það til að taka of hart á smámunum. Hann verðrur að gæta sín við óþolinmæði og smámunasemi, þegar heppilegra væri að láta sig lítilfjörleg ágalla engu skipta. Að sjálfsögðu geta tölurnar í nafninu breytt þessum skapeinkennum, en þau eru eigi að síður til í eðli hans.

Dulartala; 38
Ef þú sýnir ekki meiri ákveðni og skapfestu en raun er á, og á þetta einkum við hringl þitt úr einu í annað, dag frá degi, í stað þess að ljúka við verk þín, þá fer illa fyrir þér að lokum. Vertu sérstaklega tortrygginn á það, sem þér virðist góðar afsakanir fyrir, þvi að fresta til morguns því, sem þú getur gert í dag.

Svo mörg voru þau orð.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, júní 07, 2006

Uppáhaldsbarnið!

Hún dótla mín sagði mér það þegar hún kom og knúsaði móðurmyndina sína eftir langa dvöl í Taivan að henni þætti ekki mikið til þess koma að vera uppáhaldsdóttirin, þar sem hún væri ein um hituna.
Ég dossað um stund hún hefur stundum lag á að gera mig hálf (takið eftir "hálf")
orðlausa gerist ekki oft en gerist samt. En hún kemur mér oftar til að hlæja með skondnum athugasemdum eða að verða vitlaus úr hlátri yfir eigin fyndni. Það eru miklir mannkostir.

Hún ætlar ekki að stoppa lengi hérlendis stelpukornið mitt ef hún fær einhverju ráðið. Mér sýnist á öllu að hún ráði því sem hún vill ráða, ég skil nú ekkert í því að telpur vart þurrar bak við eyrun skuli vilja ráða sér sjálfar. Hnuss.
Hún var vart komin til landsins þegar hún réði sig í vinnu upp í sveit við leiðsögn um fornar slóðir, kraftur í þeirri litlu. En á móti kemur að það er langt í skottið á henni. Ég er glöð fyrir hennar hönd og fegin að lifa á tímum gemsa, msn, skype og alls þess samskiptadóts sem ég kann lámark á en gerir mér kleyft að þurfa ekki að bíða eftir landspóstinum.


Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, júní 06, 2006

Kostnaður

Það hefur ekki farið fram hjá mér að sviptingar eru í stjórnmálaheiminum. Ég sé nú ekki í hendi mér hverjar afleiðingarnar verða, enda held ég að það skipti ekki meginmáli hver heldur um stjórnartaumana hvert sinni. Einhvernveginn vilja allir skara eld að sinni köku.
Þar sem það fer mér afskaplega vel að hugsa, tók ég mig til og hugsaði.

Hvað kosta svona breytingar?

Biðlaun, eftirlaun, lífeyrir, starfslokasamningar, tilfærslur í embætti hljóta að kosta peninga og koma þeir ekki að hluta til úr mínum vasa?

Ég hef engar forsendur til að reikna þetta saman, en gaman væri að sjá tölur um vitleysuna.


Njótið dagsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, júní 03, 2006

Birta

Með vorinu og hækkandi sól eykst birtan og ég þetta undur er alltaf vöknuð fyrir allar aldir þrátt fyrir að ég reyni af fremsta megni að hafa dimmt og drungalegt í svefnherbergi mínu. Ég sef betur í myrkri en galli er á gjöf Njarðar, hjásvæfan mín sefur betur í birtu. Oft hefur verið tekist á um birtustig í svefnherberginu með mismiklum árangri, ég hef til að mynda reynt að sofa með fjólubláa leppa að hætti erlendra kvikmyndaleikara, ekki borið annað úr bítum en hlátur þess sem elskar mig eins og ég er. Fyrir utan þá merkilegu staðreynd að fjólubláa dulan tolldi nú ekki lengi á staðnum sem henni var ætlað að vera og liturinn fer mér ekki vel.

Nú hvað er til ráða?
Hummm!

Valkostir:

1. Hætta að sofa yfir sumartímann.
2. Hætta að sofa í sama herbergi og birtukallinn.
3. Hætta þessari vitleysu og sætta mig við þetta ástand eins og það er.


Leggst undir feld og húxa málið.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, júní 01, 2006

Viðræður

Viðræðurnar fóru út um þúfur.

Skyldi ekki vera auðveldara að safna viðræðunum saman þegar þær fara út um þúfur en ef þær hefðu farið út um víðan völl?

Það tók sig upp gamalt bros og hlátur þegar é sá fyrir mér "viðræður" hundeltar af stjórnmálamönnum um þúfur og þúfnabörð.
Ætli göngulag þeirra hafi breyst í þúfnavag!!!!!!!!!!!!

Þúfnagöngulag einkennir reyndar fyrirsætur heimsins. Og þykir flott.

Njótið hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com