Andleg ruslafata

Lí­f mitt var ekkert nema skáldskapur, dans eftir undarlegu lagi sem enginn heyrði nema ég, dagarnir mínir, stuttir og langir, vísur orð sem rímuðu ekki.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Gáfuð.

Óskaplega er gott að vera gáfuð, vita allt og geta allt (kemur það gáfum við) og ef maður veit ekki hlutina þá láta sem svo sé með gáfulegum athugasemdum og gefa frá sér viðeigandi hljóð á réttum tíma. Og ef maður getur ekki eitthvað, kenna þá einhverju öðru um en eigin getuleysi(aðstæðum eða jafnvel einhverjum sem er fjarri öllu gamni). Svo er ákaflega gott að vera réttlátur sér.

Nóg um þetta.

Ég á lítinn íþróttakút sem er núna að keppa út í hinum stóra heimi með landsliðinu í körfubolta, stóð mig að því að segja:

Við unnum .............
Þeir töpuðu gegn ..................

Niðurstaða:

Ég á hann þegar liðið vinnur og hann á sig sjálfur þegar liðið tapar.

Það fór um mig kjánahrollur þegar ég horfðist í augu við eigin asnaskap.

Þar sem ég er á leið í skólann datt mér í hug vísa:

Illa námið oft mér gekk
ýmsu lenti í þófi
Fæddist inn í fyrsta bekk
féll á hverju prófi.

Svo mörg voru þau orð.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, ágúst 26, 2006

Námið.

Ó já sest á skólabekk einu sinni enn. Gaman að geta lifað og leikið sér. Og ég gleymi oft á tíðum að vera þakklát fyrir en er það svo sannarlega.

Ég heyrði í útvarpinu að lögreglan væri með hertar aðgerðir á götum úti. GOTT MÁL SVO LENGI SEM HÚN HIRÐIR MIG EKKI FYRIR AFGLÖP.
Í vikunni sem er að líða hef ég gert mig seka um að þverbrjóta umferðarlögin.

Nú fyrst skal telja að ég ók yfir á rauðu.
Svo ók ég inn einstefnuakstursgötur.
Í þriðja lagi ók ég á móti umferð á tvíbreiðri akbraut.

Ofangreind atriði eru eingöngu þau sem ég tók eftir. Lánsöm að valda ekki slysi. Ég var sem sé ansi suðvestan við mig í vikunni sem leið.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

UNDARLEGT

Ef ég væri öðruvísi en ég er þá væri ég ekki ég. Undarlegt.

Ég velti stundum fyrir mér hvað er mikilvægt, mikilvægt mér, mikilvægt öðrum.

Bróðursonur minn ætlar að gifta sig núna í byrjun september, hvað er miklvægt að hafa með sér sem veganesti inn í hjónabandið?

Ég er í dag á þeirri skoðun að mikilvægt sé að elska og vera elskaður skilyrðislaust eins og maður er.

Ég verð eftilvill á annari skoðun á morgun.

Njótið lífsins, dagsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Afmælisdagur.

Í dag á hann Svenni bróðir afmæli, til hamingju með daginn Sveinn Kristján Pétursson.

---------------------------
Ég keyri iðulega um þjóðvegi landsins sem ekki er í sjálfum sér til frásögu færandi nema allt í einu fóru nornabrækurnar að fara í taugarnar á mér.
Ég hef hingað til látið þessa sjónmengun sem vind um augu þjóta en nú hefur eitthvað gerst í mínum annars rólyndis huga.
Ég er farin að gefa því hugsun að stoppa og týna þær af gaddavírsgirðingum landsins.
Það er ekki allt í lagi með mig. En ég hef nú búið við það alla mína tíð að vera ofurlítið á skjön við aðra menn, og verð trúlega áfram ef fer sem fram heldur.

-----------------------------

Það er friðsælt á sveitasetri Gösla þessa stundina, engin á sveimi nema ég og svipirnir .
Kyrrðin og þögnin eru vanmetin ég hyggst hefja þær til vegs og virðingar svona bara fyrir mig.Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, ágúst 21, 2006

Aldrei aftur.

Aldrei aftur ætla ég að borða hrísgrjónagraut. Og ekki orð um það meir.


9-8-8-6-6-4

Ofangreindar tölur eru aldurstölur barnabarnanna sem hafa dvalið hjá mér frá laugardegi.
Það er dýrðlegt að vera amma.


------------------------
Þar sem ég er nú vatnsberi er best ég láti fljóta með:

Vatnsberinn er gimsteinn - óunninn demantur, skorinn af þeim sem elska hann. Þú veltir kannski fyrir þér hvers vegna tiltekin manneskja hafi orðið fyrir valinu. Kannski færðu aldrei að vita það, en sambandið breytir þér fyrir lífstíð.

------------------------

Njótið lífsins, dagsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Kútar

Kútar eru til af ýmsum stærðum og gerðum.

"Sjáðu sjáðu ég er með bakarakút" sagði ein fjögurra ára áðan í sundi.

Ég er greinilega alltaf að læra.


Við ættum eiginlega að kveikja á kertum fyrir alla þá sem farist hafa í umferðinni og í öðrum slysum undanfarið.

Stundum finnst mér menn vera kallaðir til annara starfa of fljótt. Og aðrir þurfa bíða langt fram yfir getu og löngun.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

laugardagur, ágúst 19, 2006

Hlýtt og bjart.

Já aftur er orðið hlýtt og bjart í bænum. Skrýtið hvernig lífið skýtur manni ref fyrir rass á stundum.

Ef ef ekki væru erfiðleikar til að takast á við hvað þá?
Er ekki tilgangur með allri reynslunni, öllum erfiðleikum?

Ef hægt væri að læra af reynslu annara þá hefði ég gert það og sparað mér mikil átök.

Hún systir mín sagði mér að taka bómullina úr eyrunum og láta af hrokanum. Ég ætla að gera eins og mér er sagt.

Dagur fimm.

Njótið dagsins lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, ágúst 18, 2006

Dauft yfir vötnum.

Stundum er dauft yfir vötnum ég veit nú reyndar ekki alveg hver merkingin er en held að verið sé að tala um að lítið sé um að vera.

Hvað er lítið og hvað er mikið?

Og enn einu sinni: Við hvað er miðað og hvernig er mælt?

Ef ég miða út frá eigin nafla sem mér finnst stundum vera nafli alheimsins þá er lítið það sem ég á auðvelt með og mikið það sem ég á í fullu fangi með.

Í dag er lítið framundan.

Njótið dagsins, lífsins og hvers annars.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Brjóstið á mér.

Ég er nú reyndar með tvö ef einhver skyldi vilja vita það. Nú ef ekki þá er að setja upplýsingarnar með öllum hinum einskisvirði upplýsingum í gleymsku aldanna.

Það fer sem sé ýmislegt fyrir brjóstið á mér þessa dagana til að mynda, klúðurslegt orðaval fréttamanna í sjónvarpi og það sjónvarpi allra landsmanna:

..............staddur við minnið á Hvalfjarðargöngunum................

Í fyrsta lagi vissi ég ekki að Hvalfjarðargöngin hefðu minni.
Í annan stað er ekki nægilegt að vera sætur til að vera fréttamaður(hjálpar trúlega)
Þriðja atriðið er að ég þoli illa rassbögur nema hjá sjálfri mér.

Fyrir margt löngu keyptum við ástarfuglarnir hér í Borgarnesi Viðskiptablaðið því var snarlega sagt upp því ekki var hægt að lesa heila málsgrein án þess að hnjóta um rassbögur, málvillur, stafsetningarvillur, innsláttarvillur, lákúrur og alsherjar þvælu.
Í dag þori ég ekki að lesa blaðið þó ég rekist á það á förnum vegi. Huglaus ójá.

Þetta var nöldur dagsins.

Ísfirðingurinn benti mér á að ferð á Garðskagavita væri ferð sem ekki væri farin til einskis, er ég þakklát fyrir það, hugsa málið þegar ég fer í sumarfrí.
Trúlega verður fríið haustfrí en hver er munurinn eiginlega svona ef horft er til veðurblíðu sumarsins sem er að líða.

Lífið er ferðalag frá vöggu til grafar, njótið ferðalagsins, hvers annars, dagsins og lífsins.

Og ekki gleyma gleðinni, það er svo gott að ylja sér með hana sér við hlið.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

mánudagur, ágúst 07, 2006

Sossum sossum

Það rignir í Reykjavíkinni. Ekki mikið en ýrir.

Ég er svo heppin að vera inni þar sem ekki rignir. Ég er fegin að vera ekki í útilegu, í þau örfáu skipti á minni löngu ævi sem ég hef gist í tjaldi er ég sú sem:

Svaf með grjótið undir höfðalaginu eða bakinu.
Var í dældinni þar sem vatnið safnaðist.
Vaknaði með dordingla við nefið á mér.
Var upp við tjaldvegginn þegar beljurnar forvitnuðust í nánd.
Gleymdi tjaldhælunum.
Festi rennilásinn á svefnpokanum.
Var undir þegar aðrir tjaldbúar duttu á tjaldið.
Þurfti að bíða úti þegar gestir voru hjá vinum í tjaldinu.

Er þakklát fyrir að þurfa aldrei aldrei aldrei aftur að gista í tjaldi.


Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

föstudagur, ágúst 04, 2006

Rigning í---------

Reykjavík. Og það um verslunarmannahelgi?
Undrandi hlessa og bit. Ekki verður annað sagt. En lífið er ljúft eftilvill vegna þess að ég ætla ekki að vera í tjaldi.

Varðandi rigninguna, ætli væri hægt að semja við almættið um að láta rigna bara á nóttinni.......... ætla að hugsa málið og reyna að rella og suða.


Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Rak augun í----------

þetta, og læt fljóta með:

Fatlað barn eða barn sem er fatlað.
Hver er munurinn ef nokkur? Fyrir nokkrum árum las ég grein í Þroskahjálp þar sem voru ábendingar til foreldra fatlaðra barna undir fyrirsögninni: Hvað geta foreldrar gert? Ábendingarnar sem foreldrar fatlaðra barna fengu voru þessar:
1. Láttu fara fram gagngera læknisskoðun öðru hverju, m.a. heyrnar- og sjónprófun.
2. Kenna barninu að klæða sig sjálft, hnýta skóreimar, fara í yfirhöfn. Láta það gera allt sjálft sem það mögulega getur.
3. Láta það hafa vissan stað til að hengja fötin sín.
4. Fá barninu viss skyldustörf á heimilinu, sem það er fært um að leysa af hendi.5. Kenna því að segja nafn sitt og símanúmer, sé það mögulegt.
6. Hvetja það til að sýsla eitthvað út af fyrir sig.
7. Hrósa barninu fyrir það sem það getur gert en varast að gera lítið úr því sem það getur ekki gert.
8. Forðast samanburð við aðra, bæði til hróss og lasts.
9. Kenna því að ganga frá leikföngum sínum.
10. Kenna því að fara yfir götur á gangbrautum.
11. Kenna því að þekkja umferðarljósin. Það má æfa bæði heima og úti á götu.
12. Gangi barnið í skóla á að sýna áhuga fyrir því sem þar er gert.
13. Lesið upphátt fyrir barnið ef það getur fylgst með efninu.
14. Hafið ákveðna svefn - og hvíldartíma daglega.
15. Hlustið með athygli þegar barnið er að gera sig skiljanlegt.

Þegar þessi listi er lesinn yfir uppgötva allir að þessi ráð eru fyrir ÖLL börn en ekki eingöngu fyrir "fötluð börn". Þau mistök sem höfundar þessara ráða gera að mínu mati er að afmarka og skilgreina hóp barna sem fötluð umfram það að vera börn.
Þetta eru mistök sem allt of margir gera. Það eru settar fram skilgreiningar sem takmarka sýn okkar á einstaklinginn eða ákveðna hópa á undan skilgreiningu á einstaklingnum eða hópnum.

Fólk talar um erfið börn, ég vil tala um BÖRN sem eiga erfitt. Það er talað um vandræðaunglinga, ég vil tala um unglinga í vandræðum. Ég hef fundið að það er uppgjöf, hræðsla og neikvæðni gagnvart vandræðaunglingum en það eru flestir sem vilja hjálpa þegar unglingur á í vandræðum.

Það er að mínu mati mikilvægt hvernig við orðum hlutina til að rétt boð komist til skila. Tölum ekki um sjónskert börn, fötluð börn, erfið börn, óþekk börn, svona börn og hinsegin börn heldur um börn sem eiga erfitt, börn sem eru í vanda, börn sem eru sjónskert því þau eru og verða fyrst og fremst BÖRN umfram allt annað. Það að þau sé að glíma við ákveðna erfiðleika er mikilvægt atriði en EKKI aðalatriðið.

Hugo

Þörf lesning.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Ef ég væri -----------

hani stæði ég á öðrum fæti á húsþakinu hjá mér og tæki grobbgalið með tilheyrandi hanadansi. En þar sem ég er ekki hani þá:

Til hamingju Soffía með meistaranámsstyrkinn. Þú ert snillingur.

Það er gott að vera glaður með sitt.

Af öðru, hér í Borgarnesinu er ungur maður( Ágúst Haraldur) á áttunda aldursári ástfanginn upp fyrir haus. Hann kom að máli við afagösla, bað hann bestastann að láta sig vita um leið og Harpa Dögg (dama sem byrjar í skóla í haust) kæmi ömmuhelgi. Afinn sór og sárt við lagði að svo myndi vera. Nú má amman finna tíma sem fyrst ef hún á að halda stöðu sinni sem kakóamma.

Hinsvegar verður til þess að líta að sú sem ætlaði að vera í sumarfríi frá fyrsta ágúst hefur tekið að sér ómælda vinnu fram undir tuttugasta ágúst.

Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Stjörnuspá dagsins.

Vatnsberinn myndi alveg vilja sleppa við að þurfa að laga sig að öðrum, svona einu sinni.
Góðu fréttirnar eru þær að þeir munu laga sig að þér í staðinn.
Auðvitað ertu ósanngjarn, en guði sé lof fyrir þig.
Framfarir verða fyrir tilstilli þeirra sem láta sér ekki segjast.

Ég trúi þessu.

Gangi ykkur allt að sólu.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Lognmolla

Nú er lognmolla, hvergi sést ský, hár bifast ekki á höfði, laufblöð trjánna eru hæglát fyrir utan gluggann minn. Er nokkuð yndislegra?

Þegar allt er svona ljúft eins og í dag er eins og skuggar fortíðar þurrkist út og eftir situr hlýja og birta, sólskin gærdagsins, áranna er það eina sem upp í hugann kemur.

Í dag líður mér vel.

Njótið hvors annars - dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Syðri - Rauðimelur.

Þangað fór ég í heimsókn í dag, það er í sumarbústað í landi því sem ofan er greint frá.

Ég hef það gott í dag.

Njótið hvers annars, dagsins og lífsins.

Það er gott að vera til. Kveikjum á kerti

Vorið kemur með von til mí­n.
 
Sign my Guestbook from Bravenet.com Get your Free Guestbook from Bravenet.com